Níu Keflvíkingar fögnuðu sigri - ÍBV tapaði stigum

Keflavík vann sætan sigur á Þór.
Keflavík vann sætan sigur á Þór. mbl.is/Kristinn Magnússon

Keflavík vann 2:1-heimasigur á Þór í Lengjudeild karla í fótbolta, þrátt fyrir að missa tvo leikmenn af velli með rautt spjald. 

Adam Ægir Pálsson kom Keflavík yfir á níundu mínútu og 20 mínútum síðar tvöfaldaði Helgi Þór Jónsson forystu Keflvíkinga. Frans Elvarsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 31. mínútu, en þrátt fyrir það var staðan 2:0 í hálfleik. 

Þórsarar minnkuðu muninn á 49. mínútu með marki Alvaro Montejo úr víti. Verkefni Keflavíkinga varð svo erfiðara þegar Kian Williams fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 82. mínútu. 

Þrátt fyrir að vera tveimur mönnum fleiri tókst Þórsurum ekki að jafna og Keflavík fagnaði sætum sigri. Keflavík er í þriðja sæti með 10 stig og Þór í níunda sæti með 9 stig. 

ÍBV tapaði sínum fyrstu stigum í sumar er liðið gerði jafntefli á heimavelli gegn Grindavík. Stefán Ingi Sigurðarson kom Grindavík yfir á 27. mínútu en Jón Ingason jafnaði á 66. mínútu og þar við sat. ÍBV er í toppsætinu með 13 stig og Grindavík í sjötta sæti með átta stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert