Vægðarlausir Skagamenn betri en í fyrra

Brynjar Snær Pálsson og Stefán Teitur Þórðarson gefa hvor öðrum …
Brynjar Snær Pálsson og Stefán Teitur Þórðarson gefa hvor öðrum fimmu og Viktor Jónsson fagnar í bakgrunni á Vivaldi-vellinum í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

Skagamenn léku á als oddi og unnu nýliða Gróttu stórt á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi í dag, 4:0. Leikurinn var liður í 6. umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni.

Nýliðar Gróttu unnu sinn fyrsta leik í efstu deild frá upphafi á miðvikudaginn þegar þeir skelltu hinum nýliðum deildarinnar, Fjölni, 3:0 á útivelli. Grótta er með fjögur stig í 10. sæti. Skagamenn eru í fimmta sæti með sjö stig eftir að hafa gert 2:2-jafntefli gegn HK í síðasta leik en þar áður unnu þeir frækinn 4:1-stórsigur á Val á Hlíðarenda. Það var hins vegar ljóst snemma í dag hver færi með stigin þrjú á Seltjarnarnesinu í dag.

Ísinn var brotinn strax á fjórðu mínútu þegar Viktor Jónsson skallaði í markið eftir ágæta fyrirgjöf Halls Flosasonar frá hægri kantinum. Markið varð til eftir góðan undirbúning Tryggva Hrafn Haraldssonar en spurningamerki mátti setja við Hákon Rafn Valdimarsson í marki Gróttu sem varði boltann í netið.

Stefán Teitur Þórðarson tvöfaldaði svo forystu gestanna á 13. mínútu. Gísli Laxdal Unnarsson átti þá fyrirgjöf frá hægri sem Arnar Þór Helgason í vörn Gróttu náði að renna sér fyrir. Það fór hins vegar ekki betur en svo að boltinn féll fyrir Stefán við vítapunktinn og hann skoraði með föstu skoti undir Hákon í markinu.

Hákon Rafn átti erfiðan dag í markinu.
Hákon Rafn átti erfiðan dag í markinu. mbl.is/Sigurður Unnar

Staðan var svo orðin 3:0 á 18. mínútu þegar Brynjar Snær Pálsson tók við knettinum utan teigs, lagði hann fyrir sig og skoraði með föstu skoti við vítateigshornið vinstra megin, í nærhornið. Skotið var fast og hnitmiðað en aftur verður að gera spurningamerki við staðsetningu Hákons í markinu.

Viktor bætti svo við sínu öðru marki á 33. mínútu þegar hann fékk sendingu inn í teig frá Stefáni, lagði knöttinn fyrir sig og skoraði svo í fjærhornið. Enn eina ferðina var gestunum gert auðvelt fyrir. Stefán fékk ógurlegan tíma á knettinum utan teigs, án þess að heimamenn reyndu mótleik og sömuleiðis var Viktor furðu frjáls til að athafna sig innan teigs. Liðin gengu til hálfleik í stöðunni 4:0 en í raun var leikurinn löngu búinn.

Síðari hálfleikurinn bar það líka með sér. Skagamenn héldu boltanum mestmegnis í rólegheitum, biðu átekta og eyddu ekki óþarfa orku. Á sama tíma virtust heimamenn sáttir með að fá hreinlega ekki á sig færri mörk og tóku engar óþarfa áhættur til að reyna einhverjar ólíklegar hetjudáðir. Úr varð einn leiðinlegasti síðari hálfleikur sumarsins en Skagamenn taka stigin þrjú verðskuldað og eru nú komnir upp í annað sæti, allavega til morguns.

Óskabyrjun Skagamanna vondur draumur Gróttu

Skagamenn voru vægðarlausir fyrir framan markið í dag og eru nú búnir að skora 15 mörk í fyrstu sex leikjum sínum. Það var akkúrat á þessum tíma móts í fyrra er tímabilið á Akranesi fór af sporinu. ÍA var á toppnum eftir sex umferðir með 16 stig og fimm sigra en liðið vann aðeins tvo leiki það sem eftir lifði og endaði í 10. sæti. Það er þó annar andi yfir ÍA í ár, en nýliðunum sem hófu mót af krafti fyrir ári en koðnuðu svo niður. Þeir eru reynslunni ríkari og einfaldlega betra fótboltalið en í fyrra.

Ekkert lið hefur hins vegar fengið á sig fleiri mörk en Grótta sem hefur tvisvar tapað með þremur mörkum og tvisvar fengið á sig fjögur mörk í leik. Í leikjum liða, sem berjast innan um fallsætin, skiptir fyrsta markið oft gríðarlega miklu máli. Lið sem vinna fáa leiki eiga það til að vera brothættari en önnur. Gróttumenn voru lentir undir eftir fjórar mínútur í dag og kom ekki á óvart að gestirnir gengu á lagið með hverju markinu á fætur öðru eftir það. Seltirningar fara norður eftir sex daga og mæta þar KA-mönnum sem sjálfir hafa farið hikstandi af stað og átt erfitt með markaskorun í flestum leikjum sínum. Þar verða Gróttumenn að sýna nýjar hliðar. Skagamenn mæta næst Víkingum, sem hafa aðeins unnið einn leik til þessa, og verður áhugavert að sjá hvort þeim takist að halda uppteknum hætti.

Stefán Teitur fagnar marki sínu á Vivaldi-vellinum í dag.
Stefán Teitur fagnar marki sínu á Vivaldi-vellinum í dag. mbl.is/Sigurður Unnar
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Grótta 0:4 ÍA opna loka
90. mín. Axel Freyr Harðarson (Grótta) fær gult spjald Keyrir niður Óttar og fær gult.
mbl.is