Við sigldum þessu í höfn eins og KR-ingarnir

Kári Árnason spilaði vel í kvöld.
Kári Árnason spilaði vel í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Landsliðsmaðurinn Kári Árnason átti góðan leik fyrir Víking Reykjavík er liðið vann 2:0-sigur á HK í Kórnum í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. HK-ingar byrjuðu betur, en eftir að Víkingur komst yfir í fyrri hálfleik, léku gestirnir betur.

„Ég er ánægður með að við sýnum smá þroska og klárum þennan leik þegar annað markið er komið. Það var ekki mikið spil eftir það og við sigldum þessu í höfn eins og KR-ingarnir hafa unnið titla með því að gera. Þetta var ekki fallegt en við kláruðum þetta,“ sagði Kári í samtali við mbl.is. 

„Ég hef kallað eftir þessu hjá okkur; að klára leikina og ekki vera í nauðvörn í lok leikja og heppnir að halda hreinu. Við vorum svo sannarlega ekki heppnir í dag, þeir skapa varla færi, þótt þeir séu sprækir.“

Valgeir góður en tuðar of mikið

Kári hrósaði Valgeiri Valgeirssyni besta leikmanni HK í leiknum en skaut á unga strákinn í leiðinni. „Þeir eru með rosalega hæfileika í Valgeiri á kantinum. Hann er hrikalega flottur og sprækur, þótt hann mætti einbeita sér meira að fótboltanum og ekki að tuða svona mikið á köflum. Hann er samt sem áður mjög flottur leikmaður. Þetta HK-lið á framtíðina fyrir sér, þetta eru ungir strákar og skemmtilegt lið.“

Fyrra mark Víkings kom úr fyrirgjöf Viktors Örlygs Andrasonar á kantinum og boltinn fór framhjá öllum og lak inn. Óttar Magnús Karlsson skoraði annað markið með góðri afgreiðslu í teignum. „Heppin var svolítið með okkur í fyrri hálfleik, boltinn lak inn í fyrsta markinu og það breytir mynd leiksins. Svo er Óttar bannvænn þegar hann fær eitthvað smá inn í teig.“

Víkingur tapaði fyrir KR og Val fyrir leikinn í kvöld og leit liðið ekki sérstaklega vel út framan af leik. Eftir því sem leið á óx Víkingum ásmegin. „Ég er tilbúinn að samþykkja það að þeir voru betri, þeir áttu betri sóknir og náðu að halda boltanum betur innan liðsins. Þetta var engan veginn nógu gott. Þegar leið á leikinn batnaði þetta og sérstaklega eftir markið, þótt það hafi verið heppnisstimpill yfir því. Það var kannski stress í okkur í byrjun því við höfum tapað tveimur í röð. Við ræddum það fram og til baka og það var kominn tími á að við myndum ná í úrslit.“

Að lokum hrósaði Kári markaskoraranum Viktori Örlygi, en hann myndaði miðvarðarpar með Kára eftir að Halldór Smári Sigurðsson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik og leysti hlutverkið vel. „Hann er mjög skarpur fótboltamaður og getur leyst hvaða stöðu sem þú setur hann í. Hann er svo líka kraftmikill og fljótur. Það var mjög fínt að hafa hann við hliðina á sér,“ sagði Kári. 

Kári Árnason í leiknum í kvöld.
Kári Árnason í leiknum í kvöld. mbl.is/Sigurður Unnar
mbl.is