Vöknum upp við vondan draum

Tryggvi Hrafn Haraldsson reynir skot úr aukaspyrnu á Vivaldi-vellinum í …
Tryggvi Hrafn Haraldsson reynir skot úr aukaspyrnu á Vivaldi-vellinum í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

Ágúst Gylfason, þjálfari Gróttu, var að vonum niðurlútur eftir 4:0-tap gegn ÍA í 6. umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Seltjarnarnesi í dag. Gróttumenn unnu loks sinn fyrsta sigur í efstu deild í síðustu umferð en tókst ekki að fylgja frammistöðunni eftir.

„Við mætum ekki til leiks og þeir setja strax á okkur mark, svo annað og enda í fjórum í hálfleik,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is eftir leik en Skagamenn skoruðu fyrstu þrjú mörkin sín á 14 mínútna kafla snemma í leiknum.

„Það slitnar mikið á milli lína hjá okkur og Skagamenn fá mikið af svæðum til að keyra í, þeir eru sanngjarnt 4:0 yfir í hálfleik. Þetta var eiginlega bara brekka allan leikinn en við sýnum smá karakter í seinni hálfleik.“

Viktor Jónsson skoraði fyrsta mark leiksins á fjórðu mínútu og virtust Gróttumenn ætla að sækja af ákafa í kjölfarið til að jafna metin um hæl. Þess í stað fengu þeir tvö mörk aukalega í andlitið með stuttu millibili og viðurkennir Ágúst að leikmenn hans hafi aðeins gleymt sér.

„Við ætluðum að jafna þetta fljótt, opnum okkur og gleymum varnarleiknum aðeins. Svo þegar við vöknum við vondan draum er staðan orðin 4:0, þá er erfitt að koma til baka.“

Ágúst Þór Gylfason þjálfari Gróttu.
Ágúst Þór Gylfason þjálfari Gróttu. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert