Vorum vægðarlausir fyrir framan markið

Stefán Teitur skorar hér markið sitt á Seltjarnarnesinu í dag.
Stefán Teitur skorar hér markið sitt á Seltjarnarnesinu í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

„Við skorum þetta fyrsta mark og eftir það finnst mér við vera með öll völd, erum rólegir og ákveðnir,“ sagði Stefán Teitur Þórðarson, leikmaður ÍA, eftir 4:0-sigur á Gróttu á Seltjarnarnesi í 6. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni.

https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2020/07/12/skagamenn_i_odru_saeti_eftir_ofluga_byrjun/

Skagamenn skutu sér upp í annað sæti deildarinnar, allavega tímabundið, með sigrinum og var Stefán hæstánægður með öfluga frammistöðu gegn fínu Gróttuliði. „Gróttumenn eru búnir að skora sjö mörk í síðustu tveimur leikjum og geta spilað fótbolta ef þú gefur þeim tíma og pláss, það eru góðir leikmenn í þessu liði. Við bara gáfum þeim engan tíma og vorum vægðarlausir fyrir framan markið.“

Skagamenn héldu hreinu í fyrsta sinn í sumar og hafa hægt og bítandi verið að færa sig upp á skaftið í leikjum sínum það sem af er sumri. Stefán segir liðið fullfært um að eiga gott tímabil.

„Allt liðið, við unnum fyrir hvorn annan og lögðum hart að okkur. Við vorum ákveðnir í að halda loks hreinu. Við höfum sýnt góðan stíganda, fyrir utan kannski síðasta leik. Ég er mjög ánægður og held að við munum sýna stöðugleika í sumar,“ sagði Stefán Teitur við mbl.is.

mbl.is