Fylkir á toppnum eftir fjóra sigra í röð

Þórir Jóhann helgason og Daði Ólafsson í baráttu í Kaplakrika …
Þórir Jóhann helgason og Daði Ólafsson í baráttu í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Arnþór

Fylkir vann 2:1-sigur á FH á Kaplakrikavelli í 6. umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld. Árbæingar hafa nú unnið fjóra leiki í röð og eru á toppnum, fyrir ofan Íslandsmeistara KR á markatölu sem eiga þó leik til góða.

Fylkismenn mættu fullir sjálfstrausts til leiks í Hafnarfjörðinn, enda búnir að vinna þrjá leiki í röð, gegn Gróttu, Fjölni og KA fyrir leik kvöldsins. Þar áður töpuðu þeir naumlega gegn Stjörnunni og Breiðabliki í fyrstu umferðunum og höfðu Árbæingar því litla ástæðu til að óttast FH-inga sem sjálfir hafa átt erfitt uppdráttar undanfarið, fengu skell gegn Víkingum í þarsíðasta leik og töpuðu gegn Blikum í síðustu umferð.

Það var þó ekki boðið upp á mikla fótboltaskemmtun framan af kvöldi og var rúmlega tuttugu mínútna bið eftir fyrstu marktilraun leiksins er Þórir Jóhann Helgason átti ágæta tilraun utan teigs fyrir FH sem Aron Snær Friðriksson varði vel. Það voru svo gestirnir sem brutu ísinn eftir hálftímaleik. Daði Ólafsson átti þá langa sendingu inn fyrir vörnina á Þórð Gunnar Hafþórsson, sem stakk Guðmann Þórisson af eftir að varnarmanninum mistókst að hreinsa boltann. Gunnar Nielsen ætlaði að vaða út úr markinu en rann og Þórður sneri að lokum knöttinn snyrtilega í fjærhornið, laglegt mark og staðan orðin 1:0.

FH-ingar bættu leik sinn aðeins eftir markið en það voru hins vegar Árbæingar sem áttu að vera tveimur mörkum yfir í hálfleik. Djair Parfitt-Williams átti frábæra stungusendingu inn fyrir vörn FH í uppbótartíma fyrri hálfleiks, á Hákon Inga Jónsson sem lék á Nielsen í markinu en skaut svo í utanverða stöngina fyrir opnu marki, að vísu úr þröngu færi.

Ásgeir Eyþórsson, fyrirliði Fylkis, á Kaplakrikavelli í kvöld.
Ásgeir Eyþórsson, fyrirliði Fylkis, á Kaplakrikavelli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

FH-ingar klóruðu sig inn í leikinn eftir að Ólafur Kristjánsson þjálfari gerði breytingar og fiktaði í uppstillingunni og á 67. mínútu jafnaði Daníel Hafsteinsson metin með föstu skoti innan teigs í nærstöngina og inn eftir laglegan undirbúning Stevens Lennons. Eftir markið virtust FH-ingar vera að færa sig upp á skaftið og líklegir til sigurs. Það hefur því komið eins og kjaftshögg, sex mínútum síðar, þegar Árbæingar hirti forystuna á nýjan leik.

Sam Hewson, nýkominn inn á, fann þá Parfitt-Williams á hægri kantinum með góðri sendingu og hann gaf fyrir á annan varamann, Arnór Borg Guðjohnsen, sem skoraði laglegt mark af stuttu færi. Jónatan Ingi fékk færi til að kreista fram jafntefli undir lokin þegar hann skaut beint á Aron Snæ í markinu af stuttu færi í lokin en að öðru leyti áttu FH-ingar í mestu vandræðum með að skapa sér færi. Fleiri urðu mörkin ekki og Fylkismenn hirtu stigin þrjú.

Hversu langt geta Fylkismenn farið?

Fylki var spáð áttunda sætinu í sumar í árlegri spá Árvakurs en þar enduðu einmitt Árbæingar í fyrra. Þeir gætu þó endað ofar en það, töluvert ofar, haldi þeir áfram uppteknum hætti. Þeir töpuðu með naumindum gegn stórliðum Stjörnunnar og Breiðabliks í fyrstu umferðum og unnu svo þrjá í röð og myndu kannski einhverjir segja að þeir hafi þá verið á pari, ef svo má að orði komast að umræddir þrír sigurleikir voru gegn liðum sem Fylkismenn voru allt eins líklegir til að vinna. Að mæta í Kaplakrika og vinna sanngjarnan sigur er hins vegar alltaf afrek, jafnvel á þessum mögru árum FH-inga verður seint vanmetið að leggja þá á eigin velli.

Fylkismenn gætu jafnvel blandað sér í baráttuna um Evrópusæti, ef allt fer að óskum en markmiðin í Hafnarfirðinum hljóta að vera hærri. Ólafur Kristjánsson er nú að stýra FH-ingum þriðja árið í röð en þeir hafa endað í fimmta og þriðja sæti undanfarin tvö tímabil. Fimleikafélagið vann fyrstu tvo leiki sína en hefur nú spilað þrjá án sigurs. Það eru þó kannski ekki bara úrslitin sem valda áhyggjum, heldur spilamennskan. FH-ingar voru ragir í kvöld, áttu ótal misheppnaðar sendingar og voru hreinlega ráðalausir gegn öguðum og skipulögðum Fylkismönnum. Daníel Hafsteinsson skoraði ágætt mark og Jónatan Ingi fór vissulega illa af ráði sínu þegar hann fékk ágætt færi undir lok leiks en að öðru leyti voru FH-ingar hugmyndalausir og ráðþrota í aðgerðum sínum.

Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Ingi Stígsson þjálfarar virðast aftur á móti vera setja saman alvöru iðnaðarlið í Árbænum og það verður erfitt að hirða af þeim stig í sumar.

mbl.is/Arnþór Birkisson
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

FH 1:2 Fylkir opna loka
90. mín. Jónatan Ingi Jónsson (FH) á skot sem er varið Þetta var færið! Boltinn inn í teig, allir missa af honum og hann berst fyrir Jónatan Inga á markteigslínunni, skot hans er hins vegar beint á Aron Snæ sem ver og handsamar boltann í annarri tilraun. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is