Fylkismenn voru fínir en við vorum lélegir

Arnór Gauti Jónsson með boltann í kvöld en Jónatan Ingi …
Arnór Gauti Jónsson með boltann í kvöld en Jónatan Ingi Jónsson horfir á. mbl.is/Arnþór Birkisson

Jónatan Ingi Jónsson, framherji FH, var ekki að flækja hlutina í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap gegn Fylki á Kaplakrikavelli í 6. umferð Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu í kvöld. „Fylkismenn voru fínir en við vorum lélegir, við áttum ekki meira skilið í dag,“ sagði hann tæpitungulaust, aðspurður um hvað fór úrskeiðis.

„Við byrjum illa, erum ekki góðir í fyrri hálfleik og um leið og þeir fara í sókn skora þeir! Við náum að jafna, fáum færi til að vinna leikinn en erum ekki að standa okkur hinumegin í vörninni,“ bætti Jónatan við en segir einnig að nóg sé eftir af tímabilinu og því enginn tími til að fara vorkenna sér, heldur þurfi liðið að reyna komast aftur á sigurbraut.

„Við þurfum að fara aftur til baka í grunnvinnuna, við þurfum betri brag á liðið og vinna þetta betur saman. Það er nóg eftir af sumrinu og það er bara næsti leikur, Fjölnir á laugardaginn á erfiðum útivelli.“

https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2020/07/13/fjorir_i_rod_hja_sannfaerandi_fylkismonnum/

mbl.is