Leiðinlegt að menn mæti ekki klárir til leiks

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Léleg byrjun sló okkur út af laginu,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, við mbl.is eftir 3:1-tap gegn KR í vesturbænum í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

Krafturinn í KR virtist koma Blikum í opna skjöldu en staðan var 2:0 eftir níu mínútna leik.

„Það er leiðinlegt að menn voru einhvern veginn ekki klárir í leikinn, hverju sem um er að kenna,“ sagði Óskar.

Blikar minnkuðu muninn í fyrri hálfleik og staðan 2:1 að loknum fyrri hálfleik. Óskar sagðist hafa rætt það við sína leikmenn í leikhléinu að þeir ættu auðvitað miklu möguleika, enda bara einu marki undir.

„Mér fannst við vera sterkari aðilinn í seinni hálfleik en náum ekki að skapa okkur nógu mikið af færum. Það er erfitt, eins og oft hefur verið sagt að brjóta KR-liðið á bak aftur þegar það er komið í þessa stöðu en þetta er frábært lið,“ sagði Óskar.

Blikar unnu síðast í þriðju umferðinni og fengu í kvöld á sig þrjú mörk annan leikinn í röð. Óskar segir þannig lagað ekkert áhyggjuefni að vinna ekki þrjá leiki í röð og bendir á að Blikar séu ekki að spila við „sleða“.

„Auðvitað er áhyggjuefni að fá á sig þrjú mörk tvo leiki í röð. Ég fer ekki á taugum yfir því og við ætlum að bæta varnarleikinn.“

mbl.is