„Nýja stjarnan“ slakar á í pottinum

Atgangur í vítateig KR-inga í kvöld.
Atgangur í vítateig KR-inga í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þetta er frábær tilfinning,“ sagði Stefán Árni Geirsson, sóknarmaður KR, við mbl.is eftir 3:1-sigur á Breiðabliki í Pepsi Max-deildinni í kvöld. Stefán, sem er 19 ára gamall, var í fyrsta skipti í byrjunarliði KR í efstu deild í kvöld og skoraði fyrsta mark leiksins á annarri mínútu.

„Ég nýtti sénsinn sem ég fékk, byrjaði af krafti og er ánægður með þetta,“ sagði brosmildur Stefán eftir leikinn.

Hann kveðst ánægður með eigin frammistöðu en viðurkennir að hafa verið nokkuð lúinn þegar hann var tekinn af leikvelli í seinni hálfleik.

Stuðningsmenn KR voru gríðarlega ánægðir með framlag Stefáns í kvöld en hann segist sjálfur ekki svífa um á bleiku skýi og er bara ánægður að fá að spila.

„Það vilja allir spila. Við erum með frábæran hóp og samkeppnin er gríðarlega mikil,“ sagði Stefán.

KR-ingurinn sagðist ætla að skella sér í sund eftir leik þangað til blaðamaður benti honum á að hann næði því ekki áður en laugarnar loka en viðtalið var tekið skömmu fyrir tíu. „Þá skelli ég mér bara í pottinn með strákunum og slaka á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert