Valur náði ekki að brjóta niður þrjóska Stjörnumenn

Aron Bjarnason Valsmaður í baráttu við Jósef Kristin Jósefsson og …
Aron Bjarnason Valsmaður í baráttu við Jósef Kristin Jósefsson og Daníel Laxdal á Hlíðarenda í kvöld. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafs

Valur og Stjarnan skildu jöfn, 0:0, er þau mættust á Origo-vellinum á Hlíðarenda í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Eftir jafnan fyrri hálfleik voru Valsmenn sterkari í seinni hálfleik, en þeim tókst ekki að skora, þrátt fyrir góð færi. Valsmenn eru með tíu stig eftir sex leiki og Stjarnan sjö stig eftir þrjá leiki. 

Staðan í hálfleik var markalaus, en lítið var um færi fyrstu 45 mínúturnar. Valsmenn byrjuðu ágætlega og Kristinn Freyr Sigurðsson var sprækur, eins og Kaj Leo í Bartalsstovu. Áttu þeir báðir fína spretti og sendingar, án þess að skapa virkilega gott færi.

Jósef Kristinn Jósefsson átti ágæta spretti upp vinstri kantinn hjá Stjörnunni og Guðjón Baldvinsson lét varnarmenn Vals hafa fyrir hlutunum. Stjörnumenn sköpuðu sér hins vegar lítið, líkt og Valsmenn og leit því ekkert mark dagsins ljós í fyrri hálfleik.

Valsmenn voru sterkari framan af í seinni hálfleik og sköpuðu sér nokkrum sinnum hættulegar stöður og gáfu fyrirgjafir, en vörn Stjörnunnar stóð vel. Stjarnan var svo nálægt því að skora á 55. mínútu er Hilmar Árni Halldórsson skaut í slánna úr fallegri aukaspyrnu.

Kristinn Freyr SIgurðsson reynir skot að marki Stjörnunnar í kvöld.
Kristinn Freyr SIgurðsson reynir skot að marki Stjörnunnar í kvöld. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafs

Valsmenn voru aftur sterkari eftir sláarskotið og Patrick Pedersen og varamaðurinn Sigurður Egill Lárusson fengu báðir úrvalsfæri. Haraldur varði stórglæsilega frá Pedersen er Daninn skallaði á markið af stuttu færi og Sigurður Egill setti boltann yfir úr mjög góðu færi eftir fyrirgjöf Arons Bjarnasonar.

Valsmenn voru áfram sterkari það sem eftir lifði leiks, en tókst ekki að skora gegn þrjóskum Stjörnumönnum og skiptu liðin því stigunum sín á milli. 

Lifnaði við í seinni hálfleik 

Leikurinn lifnaði við í seinni hálfleik eftir afar rólegan fyrri hálfleik. Valsmenn sköpuðu sér fullt af færum og komust í góðar stöður, en varnarlína Stjörnunnar stóð vaktina vel og Haraldur Björnsson var í miklu stuði í markinu. Valsmenn hefðu hins vegar átt að gera betur í nokkrum stöðum. Haraldur varði einu sinni virkilega vel frá Patrick Pedersen, en Daninn átti að fara betur með færið. 

Aron Bjarnson hjá Val í baráttu við Stjörnumennina Jósef Kristinn …
Aron Bjarnson hjá Val í baráttu við Stjörnumennina Jósef Kristinn Jósefsson og Brynjar Gauta Guðjónsson. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafs

Sigurður Egill Lárusson fékk annað úrvalsfæri í seinni hálfleik og skaut þá yfir. Gæðaleikmenn eins og Pedersen og Sigurður Egill eiga að nýta færi sem þessi betur. Valsmenn eru búnir að skora þrettán mörk í sumar og er lítið hægt að kvarta yfir því, það gengur hinsvegar illa hjá Valsmönnum að brjóta niður sterkustu lið landsins. 

Valur skoraði ekki á móti KR og ekki á móti Stjörnunni. Valsmenn eru hinsvegar vægðarlausir þegar þeir komast á blaðið gegn minni spámönnum, eins og þeir sýndu gegn HK, Gróttu og vængbrotnum Víkingum í Reykjavík. Valsmenn þurfa að skora á móti stóru liðunum líka. 

Hilmar Árni hársbreidd frá glæsilegu marki 

Stjörnumenn eru sennilega mjög sáttir með jafntefli. Það dró verulega af þeim í seinni hálfleik og þeir virtust þreyttir, enda ekki búnir að spila deildarleik í rúmar þrjár vikur. Að koma á erfiðan útivöll og ná í stig undir þeim kringumstæðum er sterkt. 

Frá leiknum á Hlíðarenda.
Frá leiknum á Hlíðarenda. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafs

Garðbæingar verða eflaust bara sterkari þegar þeir komast í betra leikform, en þeir geta fagnað því að vera eina taplausa lið deildarinnar, þótt þeir hafi vissulega spilað færri leiki en önnur lið. Með smá heppni hefði Stjarnan getað stolið stigunum þremur en Hilmar Árni Halldórsson var hársbreidd frá því að skora fallegt mark úr aukaspyrnu. „Þetta dettur hjá honum næst,“ sagði Alex Þór Hauksson, fyrirliði Stjörnunnar eftir leik. Það er ekki ólíklegt. 

Valur 0:0 Stjarnan opna loka
90. mín. Lasse Petry (Valur) á skalla sem er varinn Í fínu skallafæri en skallar beint á Harald. Valsmenn eru búnir að vera töluvert sterkari í seinni hálfleik, en ekki náð að skora.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert