Þetta var spurning um millímetra

Alex Þór Hauksson með boltann í leiknum við Val.
Alex Þór Hauksson með boltann í leiknum við Val. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafs

„Þetta var fínn leikur þótt það hafi ekki komið mörk,“ sagði Alex Þór Hauksson, fyrirliði Stjörnunnar, eftir markalaust jafntefli við Val í Pepsi Max-deildinni í fótbolta á Origo-vellinum í kvöld. 

„Ég held þetta hafi verið góð skemmtun fyrir áhorfendur, allir á vellinum lögðu allt í sölurnar. Við erum glaðir með að halda hreinu gegn sprækum Völsurum. Ég hefði viljað sjá okkur ná inn einu marki en úr því sem komið var þetta hörkuleikur á milli góðra liða og gott stig fyrir bæði lið,“ sagði Alex. 

Hilmar Árni Halldórsson komst næst því að skora hjá Stjörnunni en hann skaut í slá úr aukaspyrnu í seinni hálfleik. „Hilmar er frábær spyrnumaður og það kom mér ekkert á óvart að hann hafi verið að setja hann nálægt vinklinum. Þetta var spurning um millímetra. Það datt ekki með okkur í dag en gerir það örugglega næst.“

Frá leiknum á Hlíðarenda í kvöld.
Frá leiknum á Hlíðarenda í kvöld. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafs


Valsmenn voru sterkari í seinni hálfleik og fengu þeir nokkur færi til að skora. Haraldur Björnsson stóð vaktina vel í marki Stjörnunnar. „Valsmenn eru með mjög gott lið og skapa sér alltaf einhver færi. Halli kom inn þegar þurfti og hann varði oft á tíðum frábærlega. Við sem lið erum mjög sáttir með að halda hreinu. Það gerist ekki oft á móti svona góðu liði.“

Leikurinn var sá fyrsti hjá Stjörnunni síðan liðið lék við Fjölni 21. júní síðastliðinn þar sem kórónuveirusmit greindist hjá leikmanni liðsins. „Þetta var ógeðslega gaman, við vorum hungraðir í að spila og það er búið að vera mikil tilhlökkun. Það er frábært að vera komnir aftur í þetta mót og við getum ekki beðið eftir næstu leikjum,“ sagði Alex Þór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert