Þýðir ekkert að hengja sig á þessu

Haukur Páll Sigurðsson með boltann í leiknum í kvöld.
Haukur Páll Sigurðsson með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þorsteinn Ólafs

Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, var svekktur eftir markalaust jafntefli við Stjörnuna í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Valsmenn fengu mjög góð færi í seinni hálfleiks, en tókst ekki að brjóta ísinn. 

„Við fengum færi til að setja mark í seinni hálfleik en Halli varði helvíti vel. Heilt yfir var þetta jafn og erfiður leikur. Mér fannst við hinsvegar fá mjög góð færi og við hefðum mátt nýta þau og þá hefðum við siglt þessu heim, svo ég er smá svekktur.“

Við vorum sterkari í seinni hálfleik. Fyrri hálfleikurinn var mjög lokaður og lítið um færi. Við byrjuðum af krafti og áttum góð áhlaup en við vorum ívið sterkari í seinni hálfleik. Við þurfum að nýta færin okkar.“

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, og Ólafur Jóhannesson, einn af þjálfurum Stjörnunnar, þekkjast býsna vel, en þeir unnu lengi saman hjá FH. Kunna þeir því að loka á lið hvors annars. „Vissulega þekkjast þeir mjög vel, en við fórum ágætlega yfir Stjörnuna og fyrstu tvo leiki þeirra og í vetur. Annars einbeitum við okkur á því að gera okkar hluti. Mér fannst það takast betur í seinni hálfleik en þeim fyrri.“

Haukur Páll mun ekki sleikja sárin lengi, enda þétt spilað. „Við þurfum bara að halda áfram og taka þrjú stig í næsta leik. Það þýðir ekkert að hengja sig á þessu og vera fúll. Við vöknum á morgun, förum á æfingu og gleymum þessu,“ sagði Haukur Páll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert