Vitum að við erum góðir

Úr leiknum á Kaplakrikavelli í kvöld.
Úr leiknum á Kaplakrikavelli í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við erum með unga stráka í þessu liði sem eru að standa sig vel og gott betur en það. Við sýndum það hér í kvöld að það er karakter í þessu liði, sagði Sam Hewson, miðjumaður Fylkis, eftir öflugan 2:1-sigur á FH í 6. umferð Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Fylkismenn töpuðu fyrstu tveimur leikjum tímabilsins en hafa nú unnið fjóra í röð og eru á toppi deildarinnar sem stendur. Árbæingum var víða spáð einu af neðri sætum deildarinnar fyrir tímabilið en Hewson segir leikmenn liðsins gefa lítið fyrir það. „Fyrir tímabilið er auðvitað alltaf fólk með skoðanir en þetta snýst um hvað við sjálfir trúum á. Við erum fullir sjálfstrausts og erum með markmið sem við stefnum ótrauðir á.

Englendingurinn kom inn af varamannabekknum í kvöld en hann er að koma til baka eftir meiðsli, missti af síðustu þremur leikjum. „Það er gott að vera kominn aftur inn á völlinn, þetta hefur verið erfitt. Ekki bara í sumar heldur á síðustu leiktíð líka,“ sagði hann í samtali við mbl.is og hrósaði liðsfélögum sínum enn meira og sagði þá geta orðið enn betri.

„Við erum með unga stráka í þessu liði sem eru að standa sig vel og gott betur en það. Við sýndum það hér í kvöld að það er karakter í þessu liði. Við vorum inn í leikjunum og spiluðum vel [gegn Stjörnunni og Breiðabliki]. Við vissum svo að við gátum unnið næstu þrjá og við gerðum það. Að koma í Kaplakrika er svo alltaf erfitt, fyrir öll lið. Við erum gríðarlega ánægðir með þennan sigur.

Það eru strákar hérna sem eru hörkugóðir og ef þeir bara trúa aðeins meira á sjálfan sig geta þeir gert enn betur! Þetta eru bara sex leikir og við spilum einn í einu en við ætlum að reyna halda áfram að vinna. Við vitum að við erum góðir.“

Sam Hewson í leik með Fylki.
Sam Hewson í leik með Fylki. mbl.isKristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert