Auðvitað tekur maður bara utan um stelpuna

Eva Núra Abrahamsdóttir hjá FH og Hulda Ósk Jónsdóttir hjá …
Eva Núra Abrahamsdóttir hjá FH og Hulda Ósk Jónsdóttir hjá Þór/KA í hörðum slag á Þórsvellinum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er svekktur,“ sagði Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA eftir 0:1 tap gegn FH í 6.umferð Pepsi Max deildar kvenna í knattspyrnu á Þórsvellinum í kvöld.

„Við ætluðum að ná í þrjú stig á heimavelli og því miður þá er þetta bara einn af þessum dögum þar sem fellur ekki neitt með manni. Svo kom klaufamark í lokin sem setur punktinn yfir i-ið. Þetta var bara einn af þessum dögum.“

Var Andri sáttur við spilamennsku liðsins í dag?

„Nei alls ekki. Við hefðum getað gert miklu betur og verið miklu beittari en kannski var það bara eitt af þessu sem maður getur lesið út úr leiknum. Við mættum ekki alveg til leiks klárar. Við vissum að þetta yrði barátta og kannski ekki fallegasti boltinn sem yrði spilaður í þessum aðstæðum en stelpurnar reyndu sitt besta og þær fá kredit fyrir það.

Þetta var mjög kaflaskiptur leikur. Liðin skiptust á að vera með yfirhöndina. Á kafla í fyrri hálfleik vorum við frábærar þar sem þær komast ekki yfir miðju. Svo allt í einu taka þær yfir leikinn og þá erum við á eftir í allt saman.

Ég get bara hrósað FH-liðinu fyrir að mæta hérna kolvitlausar til leiks og ná í þessi þrjú stig. Vel gert hjá þeim og að sama skapi þá tökum við þetta sem lærdóm til okkar og lærum af þessu.“ 

Harpa Jóhannsdóttir, markmaður Þór/KA gerði slæm mistök í marki FH en fyrir það hafði hún spilað vel. Aðspurður um atvikið sagði Andri:

„Auðvitað tekur maður bara utan um stelpuna og hughreystir hana. Hún er frábær markmaður og hún má ekki bara einblína á þetta eina atvik. Hún verður líka að einbeita sér að því góða sem hún gerði. Við stöndum bara þétt á bak við hana og hún mætir bara kokhraust í næsta leik.“

mbl.is