Erum á leiðinni upp úr kviksyndi

Katrín Ómarsdóttir
Katrín Ómarsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við þurftum þrjú stig í kvöld og fengum þau, í blálokin með tíu manns á vellinum,“ sagði ánægð Katrín Ómarsdóttir, leikmaður KR, eftir 3:2-sigur á Stjörnunni á Samsung-vellinum í Garðabæ í 6. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni.

KR var á botni deildarinnar fyrir leikinn, án stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar en liðið vann 4:1-sigur á Tindastól í Mjólkurbikarnum í síðustu viku. Þar skoruðu KR-ingar mörkin sín fjögur í síðari hálfleik og telur Katrín að sú frammistaða hafi verið vendipunktur hjá liðinu.

„Við erum bara búnar að vera lélegar í þremur og hálfum leik. Svo brjótum við einhvern ís í seinni hálfleik gegn Tindastól, byrjum að vinna betur fyrir hvor aðra og spilum eins og lið. Í kvöld sýnum við þennan karakter sem við höfum, sem hefur ekki fengið að skína hingað til. Þetta er vonandi það sem koma skal.“

KR-ingar gerðu miklar breytingar á leikmannahópnum sínum í vetur og fengu fjölmarga nýja leikmenn til liðs við sig. Katrín telur hléið vegna kórónuveirunnar, þar sem lið gátu ekki æft saman í nokkra mánuði, hafa bitnað mikið á Vesturbæingum.

„Ég hef séð það í gegnum tíðina, þegar margir góðir leikmenn koma saman að það tekur þá oft tíma að smella saman. Við töpuðum kannski hvað mest á kórónuveirunni, við fáum marga nýja leikmenn en lítinn tíma til að spila saman fyrir tímabilið.“

Að lokum vonast hún til að sigurinn í kvöld verði til þess að KR fari að sækja fleiri stig, en fyrst og fremst var hún ánægð með þessi þrjú sem liðið tekur með sér heim úr Garðabænum. „Við höfum talað um að við séum í kviksyndi og á endanum komumst við upp úr því. Við erum duglegar að tala saman, leysa vandamál og gerum okkar besta. Við höfum gert eins vel og við getum en það hefur ekki smollið saman enn þá. Auðvitað er enn hægt að bæta ýmislegt en þrjú stig í kvöld. Það er það eina sem skiptir máli!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert