Gaman að mæta bestu leikmönnum landsins

Álf­hild­ur Rósa Kjartansdóttir í hörðum slag við Hólm­fríði Magnús­dótt­ur í …
Álf­hild­ur Rósa Kjartansdóttir í hörðum slag við Hólm­fríði Magnús­dótt­ur í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við erum hrikalega sáttar, það var mikil barátta í liðinu og ég er ótrúlega ánægð með frammistöðuna,“ sagði Álfhildur Rósa Kjartansdóttir fyrirliði Þróttar eftir markalaust jafntefli við Selfoss á heimavelli í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

Þróttur, sem er nýliði í deildinni, hefur komið á óvart í sumar og tapaði liðið naumlega fyrir Val á sama velli fyrr í sumar. Þá vann liðið FH og gerði gott jafntefli við Fylki. Hélt liðið því áfram á sömu braut í kvöld. 

„Þetta var frekar jafn leikur, við stóðum vel í þeim og áttum alveg jafn mikið skilið út úr þessum leik og þær. Þetta sýnir hvað við erum komnar langt sem lið, við vorum alveg tilbúnar að sýna fólki hvað við getum. Mér finnst við hafa gert það mjög vel hingað til, en við verðum að halda áfram.“

Álfhildur var í hörðum slag við Dagnýju Brynjarsdóttur í leiknum, en Dagný hefur verið ein besta knattspyrnukona Íslands síðustu ár. „Það var ótrúlega skemmtilegt, þær eru með nokkra af bestu leikmönnum landsins og það var gaman að fá að mæta þeim og sýna þeim hvað maður getur. Maður fann að þær voru orðnar svolítið pirraðar,“ sagði Álfhildur, en Hólmfríður Magnúsdóttir fékk rautt spjald undir lokin þegar hún sparkaði boltanum í burtu á spjaldi. 

Eins og gefur að skilja er Álfhildur sátt með spilamennsku Þróttar til þessa í sumar. „Við erum mjög sáttar hingað til og við ætlum að halda svona áfram,“ sagði Álfhildur. 

mbl.is