Nýliðarnir heilla meira og meira

Þróttarinn Stephanie Ribeiro með boltann í leiknum í kvöld en …
Þróttarinn Stephanie Ribeiro með boltann í leiknum í kvöld en Bergrós Ásgeirsdóttir úr Selfossi fylgist með henni. mbl.is/Arnþór

Þróttur Reykjavík og Selfoss gerðu í kvöld markalaust jafntefli í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta. Fengu bæði lið fín færi til að skora, en markverðir beggja liða stóðu vaktina vel. 

Leikurinn fór mjög rólega af stað og var lítið um færi fyrstu mínúturnar. Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn opnaðist leikurinn og bæði lið sköpuðu sér einhver færi. Markverðir beggja liða þurftu hins vegar ekki að taka á honum stóra sínum og var staðan í leikhléi því markalaus.

Þróttarar fengu fyrsta mjög opna færið þegar Ísabella Anna Húbertsdóttir slapp ein í gegn á 57. mínútu, en Kaylan Marckese í marki Selfoss sá við henni. Skömmu síðar fékk Selfoss sitt besta færi fram að því er Hólmfríður Magnúsdóttir skallaði rétt framhjá úr virkilega góðri stöðu í teignum. 

Dagný Brynjarsdóttir komst ekki almennilega inn í leikinn.
Dagný Brynjarsdóttir komst ekki almennilega inn í leikinn. mbl.is/Arnþór Birkisson

Selfoss náði betri tökum á leiknum eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og voru Þróttarar mjög aftarlega. Þrátt fyrir það voru heimamenn nálægt því að skora glæsilegt mark á 77. mínútu, Mary Vignola lét þá vaða á horni vítateigsins og stefndi boltinn í bláhornið fjær áður en Marckese í marki Selfoss varði glæsilega. 

https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2020/07/14/gaman_ad_maeta_bestu_leikmonnum_landsins/

Nokkur hiti færðist í leikinn eftir því sem leið á og reynsluboltinn Hólmfríður Magnúsdóttir fékk rautt spjald í blálokin. Braut hún af sér og sparkaði síðan boltanum í burtu og fékk fyrir það sitt annað gula spjald. 

Þróttarar halda áfram að heilla

Þróttur hefur komið á óvart í sumar. Liðið er virkilega skipulagt og með skemmtilega leikmenn sem hafa tekið stóra skrefið upp í efstu deild og gert það vel. Þá eru erlendir leikmenn liðsins virkilega sterkir. Þróttur skapaði sér fleiri færi en Selfossliðið sem er eitt best mannaða lið deildarinnar og hefði með smá heppni getað tekið stigin þrjú. 

Það var hart barist í Laugardalnum í kvöld.
Það var hart barist í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hin tvítuga Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar, var virkilega sterk á miðjunni og sá hún til þess að landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir var langt frá sínu besta. Álfhildur fylgdi Dagnýju hvert fótamál og gaf ekkert eftir í baráttu við eina bestu knattspyrnukonu landsins. 

Linda Líf Boama á eitthvað inni, en hún skoraði 22 mörk í 18 leikjum í 1. deildinni á síðustu leiktíð. Er hún er aðeins komin með eitt mark í sumar. Ef hún dettur í gang getur Þróttur náð enn lengra. 

Pirringur hjá Selfossi

Hlutirnir hafa ekki gengið sem skyldi hjá Selfossi hingað til í sumar og er liðið aðeins með tvo sigra. Selfyssingar vilja vinna nýliða, hvort sem það er á heimavelli eða útivelli, en spilamennska liðsins var einfaldlega ekki nægilega góð til þess. 

Frá leiknum í Laugardalnum í kvöld.
Frá leiknum í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þróttarar voru mjög skipulagðir og gekk Selfossi illa að skapa sér færi. Það geta allir verið sammála um að leikmannahópur Selfoss sé gríðarlega sterkur, en það er eitthvað sem ekki er að virka. 

Hólmfríður Magnúsdóttir var eins og svo oft áður hættulegasti leikmaður Selfoss, en eftir því sem leið á leikinn varð hún pirruð, að lokum missti hún algjörlega hausinn og lét reka sig af velli með rautt spjald. Selfyssingar mega ekki láta mótlætið fara svona í sig og sérstaklega ekki reynslumesti leikmaður liðsins. 

Dagný komst ekki inn í leikinn, Tiffany McCarty var dæmd rangstæð um tíu sinnum í leiknum og Magdalena Anna Reimus átti alls ekki góðan dag og virkaði pirruð, líkt og Hólmfríður. Eitthvað er þó um jákvæða punkta á Selfossi; Clara Sigurðardóttir hefur komið vel inn í liðið og þá hafa Anna Björk Kristjánsdóttir og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir skipað gott miðvarðarpar. Selfoss á hinsvegar að geta gert miklu betur. 

Selfoss er í fimmta sæti með sjö stig og Þróttur í sjöunda sæti með fimm stig. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Þróttur R. 0:0 Selfoss opna loka
90. mín. Hólmfríður Magnúsdóttir (Selfoss) fær rautt spjald Hólmfríður missir hausinn í eitt augnablik og lætur reka sig út af. Brýtur af sér og neglir svo boltanum í burtu, á spjaldi. Þarna á reynslubolti eins og Hólmfríður að gera betur. Tvö gul og því rautt.
mbl.is