Afdrifarík mistök og FH fagnaði fyrsta sigrinum

Sigríður Lára Garðarsdóttir fyrirliði FH með boltann í leiknum í …
Sigríður Lára Garðarsdóttir fyrirliði FH með boltann í leiknum í kvöld en Akureyringarnir María Catharina Ólafsdóttir Gros og Hulda Ósk Jónsdóttir sækja að henni. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

FH náði í sinn fyrsta sigur og í leiðinni sín fyrstu stig í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu þegar liðið vann sterkan útisigur á Þór/KA, 1:0, í 6.umferð deildarinnar á Þórsvellinum á Akureyri í kvöld.

FH er þá komið með 3 stig en liðið hafði tapað fyrstu fjórum leikjum sínum. Þór/KA er áfram með sex stig eftir fjóra leiki.

Leikurinn fór fram á blautum Þórsvelli og var hann afar kaflaskiptur. Heimakonur byrjuðu betur en náðu þó ekki að skapa sér nein færi að ráði. Þegar leið á fyrri hálfleikinn komust gestirnir betur inn í leikinn. FH-ingar fengu hættulegasta færi hálfleiksins en Harpa Jóhannsdóttir varði þá afar vel gott skot frá Birtu Georgsdóttur.

Heimakonur komu öflugri inn í seinni hálfleikinn á meðan lítið gekk upp hjá FH en eins og í fyrri hálfleiknum náði lið Þór/KA ekki að opna vörn FH. Lið FH sótti aftur í sig veðrið þegar leið á hálfleikinn og fóru að ógna markinu og jafnræði varð með liðunum.

Það stefndi allt í markalaust jafntefli en á 85.mínútu skoraði Maddy Gonzalez sigurmark leiksins eftir slæm mistök hjá Hörpu í marki Þór/KA. Harpa fékk sendingu frá varnarmanni og ætlaði að hreinsa þegar tveir leikmenn FH komu í pressu. Harpa missti boltann of langt frá sér þegar hún reyndi að fara fram hjá leikmanni FH. Gonzalez var þá mætt og skoraði í autt markið. 

Lokatölur á Akureyri urðu 1:0 FH í vil. Sigurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir FH liðið sem var án stiga fyrir leikinn. Hafnfirðingar hafa nú unnið tvo leiki í röð en þær sigruðu Þrótt í bikarnum í síðustu viku. Liðið getur spilað mun betur en það gerði hér í dag en það eru stigin sem skipta máli.

Heimakonur geta verið svekktar með úrslitin. Spilamennskan var ekki góð í dag og liðinu gekk illa að skapa sér færi. Eftir góða byrjun á mótinu hefur liðið nú tapað tveimur leikjum í röð í deildinni þar sem liðið hefur ekki skorað mark. 

Þór/KA 0:1 FH opna loka
90. mín. Einungis uppbótartíminn eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert