Þrautseigir KR-ingar komu Stjörnunni á kaldan klaka

Stjarnan fær KR í heimsókn í kvöld.
Stjarnan fær KR í heimsókn í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Tíu KR-ingar unnu frækinn 3:2-sigur á Stjörnunni á Samsung-vellinum í Garðabænum í 6. umferð Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni. KR-ingar voru þar með að vinna sinn fyrsta sigur á mótinu og geta heldur betur verið sáttir enda spiluðu gestirnir manni færri síðasta klukkutíma leiksins. Engu að síður komu KR-ingar heimakonum í alls kyns vandræði í leiknum.

Eftir að Stjörnukonur höfðu byrjað aðeins betur kom það nokkuð á óvart þegar Katrín Ásbjörnsdóttir kom KR í forystuna. Lára Kristín Pedersen átti hnitmiðað stungusendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar, beint fyrir fætur Katrínar sem var yfirveguð og stýrði boltanum í fjærhornið. Áhugavert mark enda hafa þær báðar spilað fyrir Stjörnuna áður og voru tvær af fjórum KR-ingum sem hafa spilað með liði Garðbæinga, hinar eru Ana Victoria Cate og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir.

Heimakonur létu þetta ekki á sig fá og jöfnuðu metin á 25. mínútu og aftur var á ferðinni leikmaður sem var að gera sínum gömlu félögum grikk. Nýsjálendingurinn Betsy Hassett, sem spilaði með KR síðustu þrjú sumur, skoraði utan teigs með hnitmiðuðu skoti beint í vinstra hornið. KR-ingar urðu svo fyrir áfalli stuttu síðar þegar hægri bakvörðurinn Ana Victoria Cate fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á 33. mínútu fyrir að rífa niður Jönu Sól Valdimarsdóttur sem var að sleppa inn fyrir vörn KR.

Engu að síður voru það KR-ingar sem tóku forystuna aftur fyrir hálfleik. Alma Gui Mathiesen þrumaði þá knettinum fast í markið af stuttu færi eftir smá darraðardans inn í vítateig Stjörnunnar og sendingu frá Katrínu Ásbjörnsdóttir.

Tíu KR-ingar skora sigurmark í blálokin

Í upphafi síðari hálfleik mátti varla sjá að Vesturbæingar væru manni færri, enda voru þær ekki síður líklegar til að bæta við marki en Stjarnan að jafna. Heimakonur voru í stökustu vandræðum og voru ekki að skapa sér mörg færi þegar jöfnunarmarkið hreinlega datt inn. Shameeka Fishley átti fyrirgjöf frá hægri og Laufey Björnsdóttir ætlaði að hreinsa úr teig KR en varð fyrir því óláni að þruma boltanum í Snædísi Maríu Jörundsdóttur og þaðan fór boltinn í netið. Hin 16 ára gamla Snædís að skora sitt annað mark í meistaraflokki en hún þurfti ekki að aðhafast mikið til að ná þessu.

KR-ingar skoruðu svo dramatískt sigurmark á 89. mínútu þegar Birta Guðlaugsdóttir í marki Stjörnunnar átti afleita spyrnu frá eigin vítateig, beint á Katrínu Ómarsdóttur á miðjum vallarhelmingi heimakvenna. Hún var snögg að átta sig og stakk knettinum á nöfnu sína sem hristi af sér varnarmann og skoraði laglegt mark undir Birtu í markinu. Þetta var í raun ekkert minna en KR-ingar áttu skilið.

Byrjar tímabil KR-inga hér?

Katrín Ásbjörnsdóttir er margreyndur markaskorari sem gekk til liðs við KR í vetur eftir að hafa tekið sér frí á síðustu leiktíð vegna barneigna. Hún er uppalinn KR-ingur en spilaði síðast með Stjörnunni, á árunum 2016 til 2018. Hún fór því illa með sína gömlu félaga í kvöld, skoraði tvö lagleg mörk og nældi í fyrsta sigur Vesturbæinga í deildinni í sumar. Og þvílíkur sigur sem það var, nauðsynlegur líka.

KR-ingar bættu við sig talsverðum mannskap í sumar og var spáð ágætu gengi, í það minnsta ekki botnbaráttu en töpuðu engu að síður fyrstu þremur leikjum sínum á mótinu og fengu heldur betur skell gegn Breiðabliki, 6:0. „Ég hef séð það í gegn­um tíðina, þegar marg­ir góðir leik­menn koma sam­an að það tek­ur þá oft tíma að smella sam­an. Við töpuðum kannski hvað mest á kór­ónu­veirunni, við fáum marga nýja leik­menn en lít­inn tíma til að spila sam­an fyr­ir tíma­bilið,“ sagði Katrín Ómarsdóttir í samtali við mbl.is en hún hefur mikla trú á því að liðið sæki betri úrslit á næstunni, nú þegar helsti sviðskrekkurinn er úr leikmönnum.

KR-ingar voru áræðnir og beinskeyttir og heimakonur réðu illa við það. Þær voru í vandræðum ótt og títt þegar Katrín Ásbjörnsdóttir sótti á varnarmenn þeirra og þær voru á endanum leiknar grátt.

Staðan er áfram erfið í Garðabænum. Stjarnan hefur nú tapað þremur leikjum í röð og mun þetta tap í kvöld svíða. Botnlið KR var manni færri í klukkutíma og bjuggust flestir við því að Garðbæingar myndu kreista fram sigur en allt kom fyrir ekki. Stjarnan er með ungt lið, sem virðist stundum bogna undir þeirri pressu sem fylgir að spila fyrir stórt félag. Það er alls ekki langt síðan Stjarnan barðist á toppnum um titla en tímarnir breytast. Betsy Hassett, miðjumaður Stjörnunnar sem kom einmitt frá KR í vetur, segir Garðbæinga vera búa til nýtt og ungt lið. Því verkefnið þurfi að gefa tíma.

Stjarnan 2:3 KR opna loka
90. mín. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir (KR) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert