Ekki ósáttur með eitt stig í dag

Elín Metta Jensen skoraði mark Vals í kvöld.
Elín Metta Jensen skoraði mark Vals í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við erum tíu í nánast 90 mínútur og sýnum frábæran karakter, ég er ekkert ósáttur með eitt stig í dag,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, eftir 1:1-jafntefli gegn Fylki á Hlíðarenda í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Valsarar fengu rautt spjald strax á fyrstu mínútu leiksins og lentu svo undir stundarfjórðungi síðar og var Pétur að vonum ánægður með hvernig leikmennirnir hans brugðust við mótlætinu. Hann kennir sjálfum sér hins vegar um að hafa ekki hróflað við liðsstillingunni fyrr en Fylkiskonur voru búnar að skora.

„Ég er ánægður með hvernig stelpurnar brugðust við. Ég tók sénsinn á að spila með þriggja manna vörn og þannig skorar Fylkir, um leið og við breyttum því urðum við betri. Valur getur alveg spilað vörn eins og sókn.“

„Ég get alveg tekið það á mig að hafa ekki breytt fyrr, en við vorum líka að skapa færi á þessum tíma. Maður veit það í raun ekki fyrr en eftir leikinn hvort þetta var rétt eða rangt,“ sagði Pétur við mbl.is en Valur er áfram á toppnum með 16 stig eftir sex leiki.

Pétur Pétursson þjálfari Vals
Pétur Pétursson þjálfari Vals mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert