Guðjón Þórðarson tekur við Ólafsvíkingum

Guðjón Þórðarson þjálfari Víkings í Ólafsvík.
Guðjón Þórðarson þjálfari Víkings í Ólafsvík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðjón Þórðarson hefur verið ráðinn þjálfari knattspyrnuliðs Víkings í Ólafsvík og hann tekur við af Jóni Páli Pálmasyni sem sagt var upp störfum fyrr í vikunni. Samningurinn gildir út yfirstandandi keppnistímabil.

Hann tekur við liðinu eftir leik gegn Aftureldingu í 1. deild karla, Lengjudeildinni, á föstudagskvöldið en Brynjar Kristmundsson mun stýra Víkingsliðinu í þeim leik. Víkingar hafa tapað þremur af fyrstu fimm leikjum sínum á tímabilinu og er í níunda sæti deildarinnar en hafa endað í fjórða sæti hennar tvö undanfarin ár.

Guðjón er einhver reyndasti þjálfari landsins og hóf ferilinn árið 1987. Hann þjálfaði síðast lið NSÍ í Færeyjum á síðasta ári en lið hans hafnaði í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar þar í landi.

Guðjón Þórðarson handsalar samninginn við Ólafsvíkinga.
Guðjón Þórðarson handsalar samninginn við Ólafsvíkinga. Ljósmynd/Víkingur

Síðasta íslenska lið sem Guðjón þjálfaði var Grindavík árið 2012.

Guðjón hóf þjálfaraferilinn hjá ÍA, þar sem hann hafði sjálfur leikið allan sinn feril og stjórnaði liðinu árið 1987. Hann fór þaðan til KA og var með Akureyrarliðið í þrjú ár en undir stjórn Guðjóns fagnaði það sínum fyrsta og eina Íslandsmeistaratitli árið 1989.

Frá Akureyri lá leiðin aftur á Akranes. Guðjón tók við föllnum Skagamönnum fyrir tímabilið 1991. Þeir unnu B-deildina það ár og urðu Íslandsmeistarar með hann við stjórnvölinn 1992 og 1993 og bikarmeistarar 1993.

Guðjón hélt þá í Vesturbæinn og tók við KR, sem varð bikarmeistari bæði árin sem hann starfaði þar, 1994 og 1995.

Þá fór hann enn og aftur á Akranesi og stýrði liði ÍA sem varð Íslands- og bikarmeistari árið 1996.

Guðjón tók við karlalandsliði Íslands árið 1997, lauk með því undankeppni HM 1998 og náði svo mjög góðum árangri með það í undankeppni EM 1998 og 1999. Þar ber hæst jafnteflið við nýkrýnda heimsmeistara Frakklands haustið 1998.

Í árslok 1999 var Guðjón ráðinn knattspyrnustjóri enska C-deildarliðsins Stoke City, þegar það var keypt af Íslendingum. Hann var með liðið til 2002, vann með því neðrideildabikarinn á Wembley árið 2000 og kom Stoke upp í B-deildina vorið 2002.

Hann lét þá af störfum og stýrði síðan Start á lokaspretti norsku úrvalsdeildarinnar 2002.

Guðjón var síðan með Barnsley á Englandi 2003-04, með Keflavík í nokkra mánuði 2005 en hætti áður en Íslandsmótið hófst og tók við Notts County á Englandi sem hann stýrði 2005 til 2006.

Guðjón kom aftur heim og þjálfaði Skagamenn 2007 og 2008 en fór á ný til Englands og var knattspyrnustjóri Crewe Alexandra 2008 til 2009.

Árið 2011 tók Guðjón við liði BÍ/Bolungarvíkur sem var nýliði í 1. deild og fór jafnframt með liðið í undanúrslit bikarkeppninnar. Loks þjálfaði Guðjón lið Grindavíkur árið 2012 en síðan kom rúmlega sex ára hlé á þjálfaraferlinum þar til hann tók við liði NSÍ fyrir tímabilið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert