Óli Stefán hættur með KA

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnudeild KA og Óli Stefán Flóventsson hafa komist að samkomulagi um að Óli Stefán láti af störfum sem þjálfari karlaliðs félagsins, en hann tók við KA fyrir síðasta sumar. 

Óli Stefán var ráðinn til KA í október 2018 og gerði þá þriggja ára samning, en hann hafði áður stýrt Grindavík í þrjú tímabil og m.a. komið liðinu upp úr 1. deildinni og upp í efstu deild. Þar á undan stýrði hann Sindra í tvö tímabil. 

KA hafnaði í fimmta sæti síðasta sumar og er árangurinn sá besti síðan liðið fór upp í efstu deild árið 2017. Byrjun KA-liðsins í sumar hefur hinsvegar valdið vonbrigðum og eru KA-menn aðeins með þrjú stig eftir fimm leiki og án sigurs. Þá hefur KA aðeins skorað fimm mörk, en ekkert lið hefur skorað færri mörk til þessa.  

Gengi KA það sem af er tímabili er ekki ásættanlegt og telja báðir aðilar nauðsynlegt að gera þessar breytingar til að liðið nái sér á strik og sýni sinn rétta styrk. Liðið náði fimmta sæti undir stjórn Óla Stefáns í fyrra sem er besti árangur félagsins síðan félagið kom aftur upp í deild hinna bestu á Íslandi.

Stjórn Knattspyrnudeildar KA þakkar Óla Stefáni fyrir framlag sitt til félagsins og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. Félagið mun nú þegar skoða sín mál varðandi þjálfun liðsins og mun ekki tjá sig nánar um málið að svo stöddu,“ segir í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert