Ódrepandi Valsarar - Fylkir lætur verkin tala

Diljá Ýr Zomers á Hlíðarenda í kvöld.
Diljá Ýr Zomers á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Arnþór

Íslandsmeistarar Vals töpuðu stigum í fyrsta sinn í sumar er þeir gerðu 1:1-jafntefli gegn Fylki í 6. umferð Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Hlíðarenda í kvöld.

Það dró til tíðinda strax á fyrstu mínútu leiksins þegar Elísa Viðarsdóttir reif niður Sólveigu Jóhannesdóttur Larsen inn í vítateig og fékk dæmda á sig vítaspyrnu. Elísa fékk í kjölfarið á sig beint rautt spjald og Fylkiskonur að fá sannkallaða draumabyrjun. Bryndís Arna Níelsdóttir steig á vítapunktinn en átti slaka spyrnu og Sandra Sigurðardóttir varði vel, skutlaði sér til hægri. Staðan því áfram markalaus en Valsarar þurftu að spila manni færri í 89. mínútur.

Það voru engu að síður gestirnir úr Árbænum sem tóku forystuna og aftur var Sólveig Larsen allt í öllu. Hún var þá með knöttinn á vinstri kantinum, stakk sér inn í teig milli varnarmanna Vals og skoraði með hnitmiðuðu skoti í nærhornið. Virkilega vel gert hjá henni en varnarleikur Valsarar var engu að síður ekki til útflutnings og þarna virðist Pétur Pétursson, þjálfari Vals, hafa áttað sig á því að breytingar væru þarfar.

Elín Metta Jensen skoraði mark Vals í kvöld.
Elín Metta Jensen skoraði mark Vals í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Málfríður Anna Eiríksdóttir kom inn á stuttu síðar í staðinn fyrir sóknarmanninn Ásdísi Karen Halldórsdóttur en mögulega hefði þessi skipting átt að koma miklu fyrr. Valsarar náðu strax betri tökum á leiknum og jöfnuðu metin á 24. mínútu. Málfríður átti þá fyrirgjöf inn í vítateig og Elín Metta Jensen mætti á fjærstöngina og skoraði úr annarri tilraun, þrumaði knettinum upp í þaknetið. Staðan 1:1 og þannig var hún í hálfleik.

Dýrkeypt að tapa stigum í toppbaráttunni

Bæði lið reyndu í síðari hálfleik en sköpuðu sér engan aragrúa af færum. Gríðarlega agaðir Valsarar spiluðu aftarlega og gáfu engin færi á sér, manni færri eða ekki og hinumegin var Elín Metta einmanna í sókninni. Hún var engu að síður drjúg, hljóp manna mest og djöflaðist í varnarmönnum Fylkis allan leikinn. Að lokum urðu liðin að sættast á jafntefli sem enginn er sennilega fullsáttur við.

Valsarar töpuðu dýrmætum stigum. Meistararnir misstigu sig aðeins tvisvar allt Íslandsmótið í fyrra, gerðu jafntefli í tvígang gegn Breiðabliki sem endaði í öðru sæti. Það getur því reynst dýrkeypt að tapa stigum í toppbaráttunni, þó það sé bara einu sinni. Það er eiginlega ekki annað hægt en að minnast hvað gerðist á síðustu leiktíð þegar Valsarar fóru ósigraðir í gegnum tímabilið og urðu meistarar en Breiðablik tapaði sömuleiðis ekki leik. Liðin skildu jöfn í báðum viðureignum sínum en jafntefli Blika gegn Þór/KA reyndist hafa úrslitaáhrif að lokum. Áhugavert verður að sjá næsta leik þessara liða, þar sem þau einmitt mætast en það er orðið ansi langt síðan Valsarar og Blikar töpuðu leik á Íslandsmótinu. Valur hefur ekki tapað deildarleik síðan 17. september 2018, gegn Þór/KA, en liðið á Hlíðarenda hefur hreinlega verið ódrepandi.

mbl.is/Arnþór Birkisson

Fylkiskonur voru manni fleiri svo gott sem allan leikinn og geta alveg leyft sér að vera örlítið svekktar með niðurstöðuna. Fyrirfram hefðu þær eflaust unað stigi á heimavelli meistaranna en úr því sem komið var hefðu Árbæingar vilja hirða stigin þrjú. Þær hafa þó komið hressilega á óvart í sumar. Vinna Selfyssinga, tapa í hörkuleik gegn Blikum í bikarnum og ná svo stigi gegn meisturunum á þeirra eigin heimavelli í kvöld. Það er ýmislegt í þetta Fylkislið spunnið. „Við erum að sýna að Fylk­ir er eitt af þess­um stóru liðum. Við vor­um ekk­ert að kalla eft­ir at­hygli, við bara lát­um verk­in tala,“ sagði Sólveig Jóhannesdóttir Larsen í samtali við mbl.is að leik loknum.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 1:1 Fylkir opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is