Hafnfirðingar í þjálfaraleit?

Ólafur Kristjánsson er sagður vera taka við Esbjerg sem mun …
Ólafur Kristjánsson er sagður vera taka við Esbjerg sem mun leika í dönsku B-deildinni á næstu leiktíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari karlaliðs FH í knattspyrnu, gæti verið á leið til Danmerkur að taka við B-deildarliði Esbjerg en það er sparkspekingurinn Hjörvar Hafliðason sem greindi fyrst frá þessu á Twitter. Ólafur er 52 ára gamall en hann þekkir vel til í Danmörku eftir að hafa stýrt liðum á borð við Nordsjælland og Randers þar í landi.

Hann hefur þjálfað lið FH frá árinu 2018 en liðið hefur ekki farið neitt sérstaklega vel á tímabilinu og er í áttunda sæti deildarinnar með 7 stig eftir fimm spilaða leiki. Samkvæmt heimildum mbl.is hafa einhverjar viðræður átt sér stað í Hafnarfirði milli danska liðsins og FH en ennþá er ekkert fast í hendi.

Ólafur er uppalinn hjá Haukum og síðan FH í Hafnarfirði en hann tók við sem þjálfari FH af Heimi Guðjónssyni. FH bíður ennþá eftir sínum fyrsta titli undir stjórn Ólafs en liðið endaði í öðru sæti bikarkeppninnar síðasta sumar eftir tap gegn Víkingi úr Reykjavík í úrslitaleik á Laugardalsvelli, 1:0, þar sem Óttar Magnús Karlsson skoraði sigurmark leiksins úr vítaspyrnu.

Esbjerg féll úr dönsku úrvalsdeildinni á dögunum en liðið endaði í neðsta sæti fallriðils tvö með 22 stig. Liðið hefur fimm sinnum orðið danskur meistari, síðast árið 1979 og þá hefur Esbjerg þrívegis orðið danskur bikarmeistari. 

mbl.is