Risastór yfirlýsing í Kópavogi

Dóra María Lárusdóttir úr Val og Sveindís Jane Jónsdóttir hjá …
Dóra María Lárusdóttir úr Val og Sveindís Jane Jónsdóttir hjá Breiðabliki eigast við á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik vann afar sterkan 4:0-sigur á Val í stórleik í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. Er Breiðablik nú með 15 stig eftir fimm leiki, fullt hús stiga, og Valur með 16 stig eftir sjö leiki.

Er tapið það fyrsta í deildinni hjá Val síðan liðið tapaði fyrir Þór/KA þann 17. september 2018. Gætu úrslitin haft mikið að segja um hvort liðið verði Íslandsmeistari í haust, þar sem aðeins munaði tveimur stigum á liðunum er Valur varð meistari á síðasta tímabili. 

Breiðablik byrjaði af miklum krafti og fékk nokkur góð færi framan af. Sandra Sigurðardóttir var svo sannarlega betri en enginn á milli stanganna og sá til þess að Breiðabliki næði ekki að skora. Besta færið fékk Berglind Björg Þorvaldsdóttir strax á 2. mínútu er hún slapp ein í gegn en Sandra sá við henni.

Hinum megin tókst Valskonum að skapa sér ágætisfæri þegar leið á fyrri hálfleikinn, en illa gekk að reyna almennilega á Sonný Láru Þráinsdóttur í marki Breiðabliks og var staðan í leikhléi því markalaus. Bæði lið reyndu að sækja í hálfleiknum þrátt fyrir markaleysið og fengu þau t.a.m. fimm hornspyrnur hvort á fyrstu 45 mínútunum.

Seinni hálfleikurinn byrjaði vægast sagt með látum því Sveindís Jane Jónsdóttir kom Breiðabliki yfir eftir rúmar 30 sekúndur. Agla María Albertsdóttir fór upp vinstri kantinn og átti fyrirgjöf á Sveindísi sem skilaði boltanum af öryggi í netið. 

Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir léku báðar gríðarlega …
Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir léku báðar gríðarlega vel. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðeins örfáum sekúndum síðar var Sveindís búin að skora aftur. Sóknarmaðurinn slapp í gegn eftir sendingu Berglindar Bjargar Þorvalsdóttur og skoraði af öryggi framhjá Söndru í marki Vals og staðan orðin 2:0. 

Valskonur sóttu í sig veðrið eftir mörkin tvö, en Sonný Lára sá við Valskonum hvað eftir annað. Var hún iðulega vel staðsett og var með svarið við öllum tilraunum Valskvenna, sem voru fjölmargar. 

Breiðablik refsaði hinum megin því Sveindís Jane slapp í gegn á 77. mínútu og skoraði af öryggi framhjá Söndru eftir huggulega sendingu Öglu Maríu. Var markið það þriðja hjá Sveindísi og stoðsending númer tvö hjá Öglu. 

Agla bætti við þriðju stoðsendingunni rétt fyrir leikslok er hún sendi inn fyrir á Berglindi Björgu Þorvalsdóttur sem kláraði af öryggi og risastór 4:0-sigur Breiðabliks varð staðreynd. 

Fyrsti landsleikurinn ætti að koma fljótlega

Breiðablik hefur verið besta lið tímabilsins til þessa og koma úrslitin ekki endilega mikið á óvart. Blikar hafa skorað mikið í sumar og enn ekki fengið eitt einasta mark á sig. Hefur Breiðablik einfaldlega verið miklu meira sannfærandi í sínum leikjum. 

Sonný Lára Þráinsdóttir hafði nóg að gera í markinu.
Sonný Lára Þráinsdóttir hafði nóg að gera í markinu. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Sveindís Jane Jónsdóttir var einn allra besti leikmaður síðasta sumars, þótt hún hafi fallið með Keflavík. Hún sýndi það í kvöld að hún á heima í besta liði landsins og hún á skilið að spila leik sem þennan. Sveindís er enn þá bara 19 ára og hefur skorað sex mörk í fimm leikjum í deildinni til þessa. Það er alveg ljóst að hún er framtíðar landsliðsmaður og ætti hún að spila sinn fyrsta A-landsleik fljótlega. 

Þá má ekki gleyma þætti Öglu Maríu Albertsdóttur. Sveindís Jane fær kannski fyrirsagnirnar en Agla lagði upp þrjú mörk og lagði mikið á sig. Þá spilaði Sonný Lára Þráinsdóttir virkilega vel í markinu og varði um 15 skot, sem þykir gott í handbolta. Breiðablik er farið að minna undirritaðan á kvennalið Fram í handbolta, en Fram var langbesta liðið í vetur, eftir að Valur tók af þeim alla titlana á síðasta tímabili. Framarar voru virkilega hungraðir í allan vetur og Breiðablik verður það líka. Það er erfitt að sjá hvaða lið ætlar sér að skora á móti Breiðabliki og hvað þá vinna. 

Of mikið um einstaklingsframtök

Valskonur voru langt frá sínu besta, enda ekki vanar að tapa 0:4. Breiðablik komst hvað eftir annað bak við varnarlínu Valsara og átti ekki í miklum erfiðleikum með að skapa færi. Valskonur sköpuðu sér einhver færi, en flestar tilraunirnar voru langskot sem Sonný Lára varði örugglega. Þegar fór að blása á móti hætti Valur að spila sinn leik og leikmenn reyndu að gera hlutina upp á spýtur, sem er aldrei góðs viti. 

Elín Metta Jensen spilar oftast betur.
Elín Metta Jensen spilar oftast betur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valskonur eru ekki að ná að ógna nægilega mikið og vinstri kantstaðan er orðin vesen eftir að í ljós kom að Fanndís Friðriksdóttir verður ekki meira með. Hlín Eiríksdóttir og Elín Metta Jensen eru gríðarlega sterkar, en þær þurfa meiri hjálp frá leikmönnunum í kringum sig. Elín hefur oft verið betri, en besti kafli hennar í leiknum var þegar hún dró sig mikið út á hægri kantinn. Gerði hún lítið í framlínunni og skapaði sér lítið. 

Skák og mát

Mikið var um taktískar breytingar hjá liðunum á meðan á leik stóð og hvað eftir annað skiptu leikmenn um stöður og úr varð ákveðin skák hjá þjálfurum liðanna. Í þetta skiptið mátaði þjálfarateymi Breiðabliks andstæðinginn illa. Stórsigur og virðist fátt geta komið í veg fyrir að Breiðablik standi uppi sem sigurvegari í þessu Íslandsmóti, þrátt fyrir að nóg sé eftir. 

Breiðablik 4:0 Valur opna loka
90. mín. Andrea Rán Hauksdóttir (Breiðablik) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert