Loks sigur hjá Þór/KA

Frá leik Þórs/KA og KR á Akureyri í kvöld.
Frá leik Þórs/KA og KR á Akureyri í kvöld. Ljósmynd/Þórir

Staðan hjá Þór/KA í Pepsi Max-deild kvenna batnaði mikið í kvöld þegar liðið lagði KR 2:1 á Þórsvellinum á Akureyri.

Liðið kom sér í tíu stig og sleit sig frá pakkanum í neðri hlutanum. Öll mörkin komu í síðari hálfleiknum og komst KR yfir. Góð innkoma Margrétar Árnadóttur sneri hins vegar leiknum Þór/KA í vil og fögnuðu norðankonur vel og lengi í leikslok. 

Fyrri hálfleikurinn í dag var virkilega daufur og var lítið um gott spil og sköpun færa. KR fékk þó sénsa en kláraði þá illa. Sóknir KR voru hraðar og markvissar þar sem leikmenn hreinlega keyrðu á berskjaldaða vörn Þórs/KA eftir að hafa unnið boltann á miðjunni. Heimakonur áttu í miklu basli á miðjunni og náðu ekkert að skapa fram á við. Þær uppskáru þó fjórar hornspyrnur sem nýttust ekki. Það jákvæða hjá Þór/KA var samt að liðið hélt hreinu í fyrri hálfleik, fjórða leikinn í röð. Harpa Jóhannsdóttir sá til þess að ekki kom mark en hún átti tvær góðar vörslur í fyrri hálfleik. 

Seinni hálfleikurinn var mjög líflegur og gat allt gerst. KR var hættulegra liðið fram að fyrsta markinu en það skoraði Lára Kristín Pedersen með þrumufleyg af 25 metra færi. Þór/KA kom strax til baka og skoraði Margrét með sinni fyrstu snertingu. Hún fékk svo víti nokkru síðar og úr því skoraði Arna Sif Ásgrímsdóttir. Margrét átti að taka vítið en hún var send af velli til að taka af sér glingur úr eyrnasneplunum. Arna Sif klikkaði ekki og reyndist mark hennar sigurmarkið í leiknum. 

Eftir að hafa skorað átta mörk í tveimur fyrstu leikjum sínum þá gengur Þór/KA bölvanlega að skapa færi og skora úr opnum leik en það kom ekki að sök í dag. Leikmenn börðust eins og ljón til að halda í stigin þrjú og tókst það. 

Bestu menn leiksins í kvöld voru Harpa Jóhannsdóttir í marki Þórs/KA og Arna Sif Ásgrímsdóttir. Margrét kom sem fyrr sagði fersk til leiks en áður en hún mætti til leiks þá var lítið að frétta í sóknarleik heimakvenna. Hjá KR var Ana Victoria Cate mjög öflug en hún meiddist illa seint í leiknum. Thelma Lóa Hermannsdóttir og Alma Mathiesen voru einnig sprækar og hreinlega óheppnar að skora ekki í leiknum.

Þór/KA 2:1 KR opna loka
90. mín. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir (KR) á skot framhjá Aukaspyrnuskot nokkuð yfir slána.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert