Íslandsmeistararnir fóru létt með botnlið FH

Hlín Eiríksdóttir úr Val eltir FH-inginn Maddy Gonzalez á Hlíðarenda …
Hlín Eiríksdóttir úr Val eltir FH-inginn Maddy Gonzalez á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Arnþór

Íslandsmeistarar Vals unnu öruggan 3:1 sigur á botnliði FH á Hlíðarenda í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. 

Leikurinn byrjaði frekar hægt og Valskonur héldu boltanum vel án þess að ná að ógna FH-ingunum af nokkurri alvöru. Strax frá upphafi átti FH í basli, náði lítið að halda boltanum og vantaði mikið upp á gæði í sendingum og einvígjum. 

Elín Metta Jensen kom Valskonum síðan yfir á 36. mínútu og róðurinn varð enn þyngri fyrir FH. Fimm mínútum síðar kom Hlín Eiríksdóttir Valskonum í 2:0 forystu og Valskonur stjórnuðu leiknum algjörlega í langan tíma eftir það. 

Bergdís Fanney Einarsdóttir átti fínan leik í kvöld og skoraði þriðja mark Vals á 62. mínútu. Hún fékk boltann um 10 metra fyrir utan teig, skotið var fremur laust, en Telma Ívarsdóttir, markmaður FH, missti boltann milli fóta sér í markið. 

FH náði að klóra í bakkann á 78. mínútu þegar Maddy Gonzalez minnkaði muninn. Markið var svo gott sem í fyrsta sinn sem nokkuð reyndi á Söndru Sigurðardóttur í marki FH. Við markið færðist um stund aukið líf í lið FH, sem eftir sem áður náði þó ekki að skapa sér marktækifæri af nokkurri alvöru. 

FH-konur vörðust á köflum þokkalega, en sóknarleikur liðsins var einfaldlega ekki til staðar. Gæðamunur liðanna var sömuleiðis gríðarlegur, meiri en á að vera á milli nokkurra tveggja liða í úrvalsdeild. Valskonur voru almennt miklu yfirvegaðri á boltann, leyfðu honum að ganga og reyndu að skapa marktækifæri. Það virtist á köflum eins og FH-ingarnir væru einfaldlega hræddar við mótherja sína, mikið var um lélegar sendingar og oft voru gæðin talsvert minni en maður vill sjá í úrvalsdeild kvenna. 

Heilt yfir var leikurinn nokkuð rólegur og daufur. Valskonur áttu ekki sinn besta dag en frammistaðan nægði þó til að tryggja þrjú verðskulduð stig. 

Valur 3:1 FH opna loka
90. mín. Ásdís Karen Halldórsdóttir (Valur) á skot framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert