Maður býst alltaf við því að skora ef maður skýtur

Kvennalið Vals er ríkjandi Íslandsmeistari í knattspyrnu.
Kvennalið Vals er ríkjandi Íslandsmeistari í knattspyrnu. mbl.is/Hari

Bergdís Fanney Einarsdóttir, leikmaður kvennaliðs Vals í knattspyrnu, segist sátt með frammistöðu liðsins í kvöld, en Valur vann 3:1 sigur á botnliði FH á Hlíðarenda í Pepsi Max-deild kvenna í kvöld. 

Bergdís átti góðan leik og skoraði meðal annars þriðja mark Vals á 62 mínútu. 

Heilt yfir var leik­ur­inn nokkuð ró­leg­ur og dauf­ur. Valskon­ur áttu ekki sinn besta dag en frammistaðan nægði þó til að tryggja þrjú verðskulduð stig. 

„Mér fannst frammistaðan mjög flott hjá okkur í kvöld og það stóra er hjá okkur að við héldum áfram allan leikinn. Við höfum verið að stíga upp í því,“ segir Bergdís í samtali við mbl.is að leik loknum í kvöld. 

„Við ætluðum bara að mæta til leiks og einblína okkur að okkar leik. Það gekk bara vel hérna í kvöld.“

Mark Bergdísar var nokkuð óhefðbundið en hún fékk bolt­ann um 10 metr­a fyr­ir utan teig, skotið var frem­ur laust, en Telma Ívars­dótt­ir, markmaður FH, missti bolt­ann milli fóta sér í markið. 

Varstu að búast við því að skora þegar þú skaust?

„Maður býst alltaf við því ef maður skýtur á markið að skora. En það var mjög gaman að ná þessu inn,“ segir Bergdís. 

Gæðamun­ur liðanna var gríðarleg­ur í kvöld, raunar meiri en á að vera á milli nokk­urra tveggja liða í úr­vals­deild. Valskon­ur voru al­mennt miklu yf­ir­vegaðri á bolt­ann, leyfðu hon­um að ganga og reyndu að skapa mark­tæki­færi. Það virt­ist á köfl­um eins og FH-ing­arn­ir væru ein­fald­lega hrædd­ar við mót­herja sína. Valur er nú í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir liði Breiðabliks sem á leik inni. 

Bergdís segist vera spennt fyrir framhaldinu og að deildin sé sterk í ár. 

„Framhaldið leggst vel í okkur. Það er nóg af leikjum eftir og við einbeitum okkur bara að einum leik í einu.“

mbl.is