Svaraði skotum þjálfarans

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var geggjað að byrja þennan leik svona vel. Við vorum vel gíraðar fyrir þennan leik og það heppnaðist einhvern veginn allt sem við lögðum upp með,“ sagði kampakát Karólína Lea Vilhjálmsdóttir eftir 4:0-sigur Breiðabliks gegn Fylki á útivelli í Pepsi Max-deildinni í fótbolta. 

Karólína gerði tvö fyrstu mörk Breiðabliks og átti afar góðan leik. „Við bjuggumst við þeim brjáluðum eftir að þær töpuðu í bikarnum fyrir okkur en við ætluðum að keyra strax á þær og við gerðum það. Þær eru með frábært lið og það var gríðarlega gott að vinna þær svona.“

Breiðablik vann 1:0-sigur er liðin mættust á sama velli í bikarnum fyrr í mánuðinum, en sigurinn í kvöld var öruggari. „Í rauninni vorum við bara betur undirbúnar núna. Það er alltaf smástress að spila í bikarnum en í deildinni erum við með mikið sjálfstraust og við ætlum að halda áfram að spila okkar leik.“

Mörkin voru þau fyrstu sem Karólína skorar í sumar og viðurkennir hún að Þorsteinn Halldórsson þjálfari Breiðabliks hafi kallað eftir mörkum frá sér. „Það er kærkomið að loksins skora. Steini var að skjóta á mig í gær að ég væri ekki búin að skora nóg þannig að ég svaraði honum núna.“

Breiðablik tapaði leik í deildinni á síðasta tímabili en varð samt sem áður að sætta sig við annað sæti á eftir Val. Breiðablik hefur hins vegar verið gríðarlega sannfærandi það sem af er sumri og enn ekki fengið á sig mark. „Þetta er klárlega betra núna, sjálfstraustið í liðinu er mjög gott og svo styrktum við okkur mjög vel fyrir sumarið og við erum að spila virkilega vel. Það verður stígandi í okkar leik áfram.“

Sveindís Jane Jónsdóttir hefur fallið vel inn í lið Breiðabliks og Karólína hrósaði liðsfélaga sínum í leikslok, en þær höfðu áður verið samherjar með yngri landsliðum Íslands. „Hún er frábær leikmaður og það er ekkert smá gott að fá hana inn. Hraðinn hennar getur breytt leiknum og hún smellpassar inn í liðið,“ sagði Karólína Lea. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert