Toppliðið enn og aftur sannfærandi

Hulda Hrund Arnarsdóttir úr Fylki sækir að Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur …
Hulda Hrund Arnarsdóttir úr Fylki sækir að Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur í kvöld. mbl.is/Arnþór

Breiðablik er enn með fullt hús stiga í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta eftir sannfærandi 4:0-sigur á Fylki á útivelli í kvöld. Hefur Breiðablik nú skorað 28 mörk í deildinni í sumar og ekki fengið eitt einasta á sig. 

Breiðablik var miklu betri aðilinn í fyrri hálfleik og var 4:0-forysta liðsins í leikhléi verðskulduð. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir byrjaði gríðarlega vel og skoraði tvö fyrstu mörkin á fyrstu 14 mínútunum. Voru mörkin afar svipuð, en þau komu með skotum úr teignum eftir að Fylkiskonur náðu ekki að koma boltanum í burtu eftir fyrirgjafir.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir bætti við þriðja marki Breiðabliks á 29. mínútu er hún fékk boltann í teignum, sneri á varnarmann og negldi boltanum í netið. Vont varð verra fyrir Fylki á 37. mínútu er Katla María Þórðardóttir fékk boltann í bakið eftir hornspyrnu og þaðan fór hann í netið.

Leikurinn var rólegri í seinni hálfleik og Breiðablik tók fótinn af bensíngjöfinni á meðan Fylkir náði ekki að skapa sér mikið og fleiri mörk voru ekki skoruð. 

Enn og aftur sannfærandi

Breiðablik heldur áfram að vinna hvern leik sem liðið spilar sannfærandi. Blikar fá varla á sig færi og hefur liðið enn ekki fengið á sig mark í sumar. Það er langt síðan lið í deildinni lék eins vel og Breiðablik hefur gert til þessa í sumar og erfitt að ímynda sér að eitthvert lið finni leið til að stöðva Kópavogsliðið það sem eftir lifir tímabilsins. 

Breiðablik var gríðarlega sterkt í fyrra og með komu Sveindísar Jane Jónsdóttur er liðið nánast fullkomið. Sonný Lára Þráinsdóttir í marki Breiðabliks var áhorfandi í kvöld og hafði lítið sem ekkert að gera. 

Vonbrigði í Árbænum

Fylkir spilaði virkilega vel á undirbúningstímabilinu og einhverjir spáðu Árbæjarliðinu toppbaráttu í sumar. Eftir ágæta byrjun hefur liðið ekki spilað vel í síðustu leikjum og það vantar meiri kraft í sóknarleikinn. 

Það er engin skömm að tapa fyrir Breiðabliki í dag, en Fylkir skapaði sér ekki færi og var aldrei nálægt því að skora. Er tapið það fyrsta hjá Fylki í sumar, en það gæti vakið leikmenn liðsins að fá smáskell. Fylkir getur betur en liðið hefur sýnt í síðasta leiknum og nú verða Árbæingar að sýna úr hverju þeir eru gerðir og svara í næstu leikjum. 

Fylkir 0:4 Breiðablik opna loka
90. mín. Sveindís Jane Jónsdóttir (Breiðablik) á skot sem er varið Leikur enn og aftur á nokkra varnarmenn en skýtur núna nokkuð beint á Cecilíu sem ver.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert