Hvað ef aflýsa þarf Íslandsmótinu?

Fatma Kara og Dagný Brynjarsdóttir í skallaeinvígi í leik ÍBV …
Fatma Kara og Dagný Brynjarsdóttir í skallaeinvígi í leik ÍBV og Selfoss. mbl.is/Sigfús

Enn er hægt að aflýsa Íslandsmótinu í knattspyrnu án þess að sigurvegarar verði miðað við reglugerð sem sett var saman vegna kórónuveirunnar. 

Hér er ekki verið að gefa í skyn að sú hætta sé fyrir hendi að Íslandsmótinu verði aflýst vegna kórónuveirunnar en áhugavert er að skoða þær sérstöku ráðstafanir sem eru í gildi. 

Stjórn KSÍ samþykkti reglugerð á stjórnarfundi hinn 17. júlí þar sem um er að ræða sértækar ráðstafanir um mótahald vegna kórónuveirunnar. „Er reglugerðinni ætlað að tryggja gegnsæi og fyrirsjáanleika í mótahaldi eins og kostur er.“

Ef sýnt þykir að ekki takist að ljúka Íslandsmótinu samkvæmt mótaskrá þurfa 2/3 leikjanna að hafa farið fram til þess að Íslandsmeistarar verði árið 2020. Verði mótinu aflýst áður en tekist hefur að leika 2/3 af mótinu þá verða sem sagt engir Íslandsmeistarar árið 2020 líkt og gerðist í vetrargreinunum. 

Ef sú staða kæmi upp að hætti yrði keppni á Íslandsmótinu eftir að tekist hefði að leika 2/3 leikjanna þá mun meðalfjöldi stiga ráða.  „Hafi að lágmarki 2/3 hlutar heildarleikja ... verið leiknir samkvæmt mótaskrá ræður meðalfjöldi stiga hvers liðs fyrir sig í hverjum leik sem það hefur lokið á þeim degi þegar móti er aflýst, endanlegri niðurröðun. Telst Íslandsmótinu þar með lokið. Skulu þá Íslandsmeistarar krýndir í hverri deild og lið færast á milli deilda með sama hætti og ef allir leikir í þessum deildum á Íslandsmóti hefðu verið leiknir."  

Í reglugerðinni er einnig kveðið á um forsendur fyrir frestun leikja ef veiran herjar á leikmenn eða þeir þurfa að fara í sóttkví. „Fimm leikmenn eða fleiri í öðru hvoru keppnisliðinu, sem hafa verið í byrjunarliði þess/þeirra í öðrum af síðustu tveimur leikjum liðsins, geta ekki tekið þátt í viðkomandi keppnisleik þar sem þeim hefur verið gert að sæta einangrun eða sóttkví skv. reglum útgefnum af heilbrigðisráðherra, eftir að hafa verið greindir með Covid-19 sjúkdóminn eða orðið útsettir fyrir Covid-19 smiti."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert