Öruggt hjá FH gegn Akureyringum

Daníel Hafsteinsson kom FH-ingum á bragðið.
Daníel Hafsteinsson kom FH-ingum á bragðið. mbl.is/Arnþór Birkisson

FH varð í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta með 3:1-heimasigri á 1. deildar liði Þórs frá Akureyri. 

Daníel Hafsteinsson, sem lék áður með erkifjendum Þórs í KA, kom FH yfir strax á 2. mínútu með eina marki fyrri hálfleiks. Þórir Jóhann Helgason bætti við öðru marki úr víti á 61. mínútu og Skotinn Steven Lennon skoraði þriðja mark FH á 67. mínútu. 

Guðni Sigþórsson klóraði í bakkann fyrir Þór á 88. mínútu, en nær komust gestirnir frá Akureyri ekki og FH fagnaði öruggum sigri. 

mbl.is