Fylkir fær efnilegan leikmann í haust

Framarinn Unnar Steinn Ingvarsson gengur til liðs við Fylki í …
Framarinn Unnar Steinn Ingvarsson gengur til liðs við Fylki í haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn ungi Unnar Steinn Ingvarsson hefur náð samkomulagi um félagsskipti til Fylkis eftir lok núverandi tímabils. Unnar er 19 ára, fjölhæfur og efnilegur leikmaður sem hefur undanfarin ár spilað með Fram í fyrstu deild.

Fylkir sagði frá þessu á samfélagsmiðlum sínum í gærkvöldi, skömmu eftir leik Fram og Fylkis í Safamýrinni í 16-liða úrslitum Lengjubikarsins. Fram hafði þar betur í vítaspyrnukeppni og kom Unnar við sögu í leiknum af varamannabekknum.

Unnar Steinn, sem hefur leikið 61 leik í meistaraflokki með Fram í deild og bikar, og skorað í þeim tvö mörk, verður samningslaus eftir leiktíðina og hefur ákveðið að færa sig um set og spila í efstu deild.

Fylkir er í 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar sem stendur en Fram er í toppbaráttunni í Lengjudeildinni, í 4. sæti.

mbl.is