Grunur um smit í Ólafsvík

Úr leik Ólafsvíkinga og Fram fyrr í sumar.
Úr leik Ólafsvíkinga og Fram fyrr í sumar. Ljósmynd/Þröstur Albertsson

Æfingum karlaliðs Víkings úr Ólafsvík hefur verið frestað og leikmenn liðsins eru farnir í sjálfskipaða sóttkví vegna gruns um kórónuveirusmit innan leikmannahóps liðsins en Þorsteinn Haukur Harðarson, framkvæmdastjóri Ólafsvíkinga, staðfesti þetta í samtali við mbl.is í dag.

Einn leikmaður liðsins fór í sýnatöku í gær og bíða Ólafsvíkingar upp á von og óvon eftir niðurstöðu en Þorsteinn sagði að félagið myndi gefa strax út tilkynningu ef niðurstaðan reyndist jákvæð.

Knattspyrnusamband Íslands hefur frestað öllum mótsleikjum til 5. ágúst hið minnsta eftir hertar aðgerðir stjórnvalda til að sporna gegn veirunni. Yfirvöld hafa biðlað til íþróttahreyfingarinnar um að stöðva alla keppni til 10. ágúst.

Ólafsvíkingar áttu næst að taka á móti Grindavík á þriðjudaginn 4. ágúst en þeim leik hefur verið frestað. Þá er ekki ólíklegt að næsta leik liðsins verði frestað líka, gegn Þór á útivelli 8. ágúst, óháð því hver niðurstaðan úr veiruprófinu verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert