Vel er hugsað um okkur í Vestmannaeyjum

Olga Sevcova hefur skorað tvö mörk í síðustu tveimur leikjum.
Olga Sevcova hefur skorað tvö mörk í síðustu tveimur leikjum. mbl.is/Árni Sæberg

Eyjakonan Olga Sevcova átti stórleik er ÍBV vann frækinn sigur á stjörnum prýddu liði Selfoss í 8. umferð Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í vikunni. Heimakonur lentu snemma tveimur mörkum undir í Vestmannaeyjum gegn liði Selfoss, sem ætlar sér að vera í toppbaráttunni. Lettneski framherjinn minnkaði hins vegar muninn fyrir ÍBV snemma í síðari hálfleik og lagði svo upp í tvígang, fyrst jöfnunarmark á 85. mínútu og að lokum sigurmark leiksins í uppbótartíma. Lokatölur urðu 3:2.

ÍBV hefur nú unnið tvo leiki í röð og er með níu stig í 6. sæti eftir sjö leiki. Liðið vann nýliðana Þrótt í fyrstu umferð en tapaði svo fjórum í röð. Eftir það brösuglega gengi er liðið betur farið að finna taktinn og er fótboltinn eftir því. Mikið var um mannabreytingar í Vestmannaeyjum í vetur. Sevcova var einn þriggja leikmanna frá Lettlandi sem komu til liðsins, en hún er landsliðskona og spilaði gegn Íslandi í október á síðasta ári. Hún segir það viðbrigði að hafa komið til Íslands en í Vestmannaeyjum sé vel hugsað um hana.

„Það voru mikil viðbrigði að koma til Íslands og auðvitað erfitt að vera hérna á tímum kórónuveirunnar, þar sem fjölskyldan mín er öll í Lettlandi,“ sagði hún í samtali við Morgunblaðið, en hún fékk 2 M fyrir frammistöðu sína gegn Selfossi og er leikmaður umferðarinnar. „Mér líður samt mjög vel og það er hugsað vel um okkur í Vestmannaeyjum.“

Meiri harka á Íslandi

Sevcova viðurkennir að fótboltinn sé nokkuð öðruvísi því sem hún er vön. Hjá ÍBV reyni meira á líkamlegan styrk, en það henti henni engu að síður vel.

„Það er meiri kraftbolti hérna á Íslandi, meiri harka og við þurfum að mæta með öðru hugarfari í leikina. Við þurfum að vera tilbúnar í baráttu og ég þarf að venjast því að vera minna með boltann en ég er vön.“

Viðtalið við Olgu Sevcovu og úrvalslið umferðarinnar má sjá í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert