„Tilbúnir að gera það sem þarf“

„Ég sé ekki hvernig það ætti að vera eitthvað öðruvísi …
„Ég sé ekki hvernig það ætti að vera eitthvað öðruvísi núna,“ segir Arnar Sveinn um að tveggja metra reglan sé mætt aftur. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég held að leikmenn liðanna séu tilbúnir að gera það sem þarf til að klára mótið,“ segir Arnar Sveinn Geirsson, forseti Leikmannasamtaka Íslands og leikmaður Fylkis í Pepsi-Max-deild karla í knattspyrnu.

Eins og alþjóð veit var samkomubann hér á landi hert á fimmtudag og tveggja metra reglan gerð að skyldu á ný. Íslandsmótinu í knattspyrnu var því slegið á frest enda ekki hægt að leika án snertingar. En er æfingum þá slegið á frest líka, í eðlilegri mynd að minnsta kosti?

„Það eru ekki komin skýr svör frá hvorki KSÍ né ÍSÍ varðandi hvernig æfingar eiga að fara fram. Í gær [fimmtudag] gerði Líney [Halldórsdóttir] framkvæmdarstjóri ÍSÍ þó ráð fyrir að æfingar gætu farið fram með eðlilegum hætti. Ég er enginn sérfræðingur í þessu en miðað við hvernig þetta var síðast þegar það var sett tveggja metra regla voru æfingar ekki leyfðar nema með ströngum skilyrðum. Þá var frekar erfitt að halda fótboltaæfingu. Ég sé ekki hvernig það ætti að vera eitthvað öðruvísi núna,“ segir Arnar Sveinn.

Samkomubannstíminn í vor var erfiður fyrir margan íþróttmanninn enda flestar tegundir æfinga bannaðar. Eru menn svartsýnir á stöðuna?

„Ég hef aðeins heyrt í þeim sem ég þekki og menn eru ekki mjög peppaðir fyrir því að þetta sé að gerast aftur. Menn eru svolítið svartsýnir, sérstaklega í ljósi þess að síðast var þessi tími ekkert sérstaklega skemmtilegur. Þá var maður að æfa einn eða kannski með einum eða tveimur öðrum í einhverjum hlaupaæfingum og svo framvegis.“

Óvissan er það sem nagar menn að innan. „Þá og nú er það þessi óvissa sem er uppi. Maður veit ekki hvað þetta varir lengi. Nú er búið að herða samkomubann í tvær vikur og KSÍ búið að fresta leikjum til 5. ágúst en það hefur enga merkingu aðra en að staðan verður tekin aftur þá. En þetta er bara staðan og það þýðir ekki annað en að vera bjartsýnn á að þetta byrji sem fyrst aftur.“

Geta félögin haldið leiki án áhorfenda?

Erlendis hafa knattspyrnudeildir farið aftur af stað í miðjum veirufaraldri án áhorfenda. Leikmenn hafa þá haldið sig til hlés og átt í sem minnstu samneyti við fólk utan hópsins. „Ég held að leikmenn liðanna séu tilbúnir að gera það sem þarf til að klára mótið. Það er auðvitað ekki jafn skemmtilegt án áhorfenda,“ segir Arnar Sveinn.

En sömu hagsmunir eru ekki til staðar hér og í stærstu deildum Evrópu þar sem miklar tekjur fást af sjónvarpssamningum. „Ég held að það sé vilji allra að spila en svo er spurningin hvort félögin geta það. Geta þau haldið leiki og verið með fólk í gæslu þegar engar tekjur koma inn af leikjum? Ég held samt að langflestir séu á því að klára mótið, sé kostur á því.

Það verður að koma í ljós með hvaða hætti það verður gert og snýst auðvitað á endanum um öryggi fólks. Það eru auðvitað alltaf einhverjir leikmenn sem eru ekki tilbúnir að spila ef allt er ekki öruggt. Það eina sem hægt er að gera í þessu er að bíða, vona það besta og búa sig undir það versta.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert