Ekki eins og menn séu að kyssast á æfingum

Lærisveinar Guðjóns fagna marki.
Lærisveinar Guðjóns fagna marki. mbl.is/Þröstur

Knattspyrnuþjálfarinn Guðjón Þórðarson er ekki sáttur við tilmæli yfirvalda um að íþróttalið fullorðinna æfi ekki til 13. ágúst næstkomandi. Bendir Guðjón á að lið á Norðurlöndunum fái bæði að spila og æfa.

„Það er öfgakennt. Það er æft á Norðurlöndunum og spilað. Íþróttaæfingar á völlunum eru 105x70 og það er ekki eins og menn séu að kyssast á þessum æfingum. Það er hægt að hafa æfingar án snertinga og menn þrífa sig og passa eftir æfingar,“ sagði Guðjón við Valtý Björn Valtýsson og Magnús Böðvarsson í útvarpsþættinum Minni skoðun á Sport FM

„Það er hægt að æfa með færslum og öðru án þess að snertast. Þú setur hanska á hendurnar og passar þær. Það er misræmi í þessu hjá stjórnvöldum,“ sagði Guðjón, sem er sem stendur í sóttkví þar sem leikmaður Víkings greindist með kórónuveiruna á dögunum.

Guðjón Þórðarson var ráðinn þjálfari Víkings 14. júlí síðastliðinn.
Guðjón Þórðarson var ráðinn þjálfari Víkings 14. júlí síðastliðinn. Ljósmynd/Víkingur

„Maður sá mynd af troðfullri Leifsstöð og það má ekki vera þannig að það sé hentistefna hvernig hlutirnir eru. Það er ekki skrítið að sumt fólk sé að missa þolinmæðina þar sem aðstæðurnar eru misjafnar. Við erum að bjóða inn fólki frá Noregi, Danmörku og öðrum löndum til Íslands. Þar er verið að spila fótboltaleikina og fólk er að koma frá þessum löndum án þess að fara í skimum og við megum ekki spila fótbolta.

Þegar ég fór til Akureyrar um daginn voru raðir fyrir utan barinn og troðfullt inni. Á sama tíma var verið að spila áhorfendalaust í bikarnum. Það er ekki mikið samræmi í þessu. Fólk sem er fullt, skakkt og hvað eina er ekki að hugsa um tveggja metra regluna. Ef það er einhvers staðar holl starfsemi og áhugi fyrir því að hafa hlutina í lagi er það í íþróttahreyfingunni,“ sagði Guðjón Þórðarson. 

mbl.is