Leikmaður Vals fékk ekki að fara til FH

Ólafur Karl Finsen gæti yfirgefið Val.
Ólafur Karl Finsen gæti yfirgefið Val. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ólafur Karl Finsen, leikmaður Vals, hefur verið orðaður við brottför frá félaginu og hefur hann lítið komið við sögu í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í sumar. Logi Ólafsson, annar þjálfara FH, viðurkennir í samtali við Fantasy Gandalf-hlaðvarpið að FH hafi reynt að fá Ólaf Karl til félagsins. 

„Það er ekkert launungarmál að við höfum rætt við Ólaf Karl Finsen og hann vill koma í FH en Valur vill ekki hleypa honum til okkar,“ sagði Logi, sem hefur þó ekki gefið upp alla von. „Það hafa verið viðræður milli Vals og FH í þessu máli en það hafa engar lausnir komið ennþá. Ég vona að þær komi.“

Ólafur hefur aðeins spilað tvo leiki til þessa í sumar, einn í deildinni og annan í bikarnum. Er hann á sínu þriðja tímabili með Val, en hann kom frá Stjörnunni fyrir sumarið 2018. Verður hann samningslaus í lok leiktíðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert