Undanþágubeiðni KSÍ hafnað og leikjum frestað

Frá leik Fjölnis og KR í Mjólkurbikarnum í síðasta mánuði.
Frá leik Fjölnis og KR í Mjólkurbikarnum í síðasta mánuði. mbl.is/Árni Sæberg

KSÍ hefur borist svar frá Heilbrigðisráðuneytinu vegna beiðni um undanþágu frá nándartakmörkunum og sótthreinsun búnaðar í æfingum og keppni í knattspyrnu. Þrátt fyrir umfangsmiklar tillögur að aðgerðum hefur undanþágubeiðninni verið hafnað og því hefur mótanefnd KSÍ ákveðið að fresta öllum leikjum í meistaraflokkum og í 2. og 3. flokki karla og kvenna til og með 13. ágúst.

Í rökstuðningi ráðuneytisins segir m.a.: „Knattspyrnuleikir eru í eðli sínu þannig að ekki er unnt að viðhalda 2 metra nálægðartakmörkun, þrátt fyrir þær reglur sem KSÍ hefur lagt fram um sóttvarnir vegna COVID-19, dags. 6. ágúst 2020. Í því ljósi og með vísan til þess að íþróttaviðburðir falla ekki undir undanþáguákvæði 1. mgr. 8. gr. auglýsingarinnar er því ekki unnt að verða við beiðni KSÍ og er henni því hafnað.”

Þar sem takmarkanir heilbrigðisyfirvalda ná eingöngu til þeirra sem fæddir eru 2004 og fyrr verður leikjum í 4. og 5. flokki karla og kvenna ekki frestað. Foreldrar og aðrir aðstandendur leikmanna í þessum flokkum eru hvattir til að gæta ítrustu varkárni í öllum samskiptum og forðast að safnast saman í tengslum við æfingar og leiki þessara flokka.

KSÍ mun áfram vinna með heilbrigðisyfirvöldum að því að ná tökum á COVID-19 faraldrinum og hvetur alla knattspyrnuhreyfinguna til að standa saman í því að fara eftir þeim leiðbeiningum sem gefnar hafa verið út um almennar sóttvarnir (sótthreinsun og nálægðarmörk). KSÍ hvetur leikmenn sérstaklega til að gæta vel að sér í öllum samskiptum við aðra og forðast fjölmenna staði eins og verslanir, veitingastaði, kvikmyndahús, skemmtistaði o.s.frv. Leikmenn eru fyrirmyndir og gríðarlega mikilvægt á þessum tímum að það hlutverk sé tekið alvarlega og að gengið sé á undan með góðu fordæmi. Með samstilltu átaki allrar knattspyrnuhreyfingarinnar getum við látið gott af okkur leiða í baráttunni við COVID-19 og þannig aukum við líkurnar á að hægt sé að koma iðkun knattspyrnu í eðlilegt horf á nýjan leik,“ segir í fréttatilkynningu KSÍ í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert