Mögulegir andstæðingar KR í Meistaradeildinni

KR-ingar eru í pottinum fyrir dráttinn í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar …
KR-ingar eru í pottinum fyrir dráttinn í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar á morgun. mbl.is/Arnþór Birkisson

Dregið verður til 1. umferðar í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu klukkan 10 í fyrramálið en Íslandsmeistarar KR  verða þar í pottinum.

Vegna kórónuveirufaraldursins sem herjað hefur á heimsbyggðina er fyrirkomulagið með nokkuð breyttu sniði og verður til að mynda aðeins einn leikur. KR-ingar dragast því annaðhvort á heima- eða útivöll. Þá ríkir óvissa um hvort KR-ingar geti á annað borð hýst andstæðing í keppninni í Vesturbænum vegna hertra aðgerða yfirvalda hér heima.

Ekkert verður spilað á Íslandi til 13. ágúst hið minnsta en leikirnir í fyrstu umferðinni eiga að fara fram 18. eða 19. ágúst. Þá hefur UEFA skipt öllum 34 liðum niður í fimm hópa og geta þau aðeins dregist gegn liði sem er í sama hópi. Er þetta meðal annars gert til að takmarka ferðalög liða vegna kórónuveirunnar.

KR-ingar eru í neðri styrkleikaflokki fyrir dráttinn og í hópi eitt. Djurgården frá Svíþjóð er í sama hópi og einnig í neðri styrkleikaflokki og þá verður sigurvegari úr forkeppninni þar einnig, Linfield frá Norður-Írlandi eða Drita frá Kósovó.

Í efri styrkleikaflokki í sama hópi og því mögulegir andstæðingar KR eru: Celtic frá Skotlandi, Leg­ia Var­sjá frá Póllandi og Ferencváros frá Ungverjalandi.

KR-ingar mættu einmitt Celtic í annarri umferðinni sumarið 2014. Skotarnir unnu þá fyrri leikinn í Vesturbænum 1:0 og unnu svo heimaleikinn viku síðar, 4:0. Varnarmaðurinn Virgil van Dijk, sem í dag er Evrópu- og Englandsmeistari með Liverpool, spilaði þá með Celtic. Skosku meistararnir slógu svo út Stjörnuna ári síðar, unnu 2:0 á Celtic Park og svo 4:1 í Garðabænum. Legia Varsjá sló út FH-inga árið 2006 og Ferencváros var annar mótherji íslensks liðs í Evrópumótunum árið 1965 þegar ungverska liðið bar sigurorð af Keflavík.

mbl.is