Langsótt að ætla að slá út Celtic

Virgil van Dijk og Emil Atlason í einvígi í leik …
Virgil van Dijk og Emil Atlason í einvígi í leik KR og Celtic sumarið 2014. mbl.is/Eggert Jóhannesson

KR mæt­ir skosku meist­ur­un­um í Celtic í fyrstu um­ferð Meist­ara­deild­ar Evr­ópu í knatt­spyrnu en liðin mætast í Skotlandi síðar í mánuðinum. Mbl.is heyrði í Rúnari Kristinssyni, þjálfara Vesturbæinga.

„Þetta voru allt erfiðir andstæðingar og erfitt að spá eitthvað fyrir um hvort við hefðum átt betri möguleika annars staðar. Ég held að þetta sé bara ágætt, stutt ferðalag og það er auðvelt að afla sér upplýsinga um Celtic og fylgjast með þeim,“ sagði Rúnar en ásamt Celtic gat KR mætt Leg­ia Var­sjá frá Póllandi og Ferencváros frá Ung­verjalandi.

Mikil óvissa ríkir í samfélaginu vegna kórónuveirunnar og var til að mynda alls óvíst hvort KR-ingar gætu yfirhöfuð spilað heimaleik í keppninni. Í stað þess að lið leiki bæði heima og að heim­an verður bara spilaður einn leik­ur. KR-ingar fara því til Skotlands en það er enn óvíst hvort leikurinn fari fram á heimavelli Celtic eða ekki.

„Við vitum til dæmis ekki hvar þessi leikur fer fram en við þurfum bara að bíða og sjá. Við vitum alla vega að við munum spila við þá og þurfum að fara að búa okkur á fullu undir það,“ sagði Rúnar og bætir við að KR-ingar ætli sér auðvitað að spila til sigurs, þótt þeirra bíði auðvitað sterkur andstæðingur.

„Það eru alltaf tækifæri í fótbolta og möguleikar á að koma á óvart. Auðvitað er það langsótt að ætla að fara að slá út Celtic á þeirra heimavelli en við förum ekki í þetta verkefni öðruvísi en að hafa trú á því.“ sagði Rúnar og tjáði blaðamanna að hann og Bjari Guðjónsson, aðstoðarþjálfari, ætluðu að horfa á leik Celtic og Kilmarnock í skosku úrvalsdeildinni síðar í dag.

Við þurfum að eiga algjöran toppleik í alla staði til að eiga möguleika. Okkur langar vissulega að fara áfram en við erum einfaldlega lið í neðri styrkleikaflokki og þá er þetta eina leiðin, hún er mjög erfið.“

Hagur allra að klára mótið

Þá er alveg ljóst að leikurinn verður spilaður fyrir luktum dyrum. Rúnar fór með KR til Skotlands sumarið 2014 og spiluðu Vesturbæingar þá fyrir framan um 30 þúsund áhorfendur er þeir töpuðu 4:0 í Edinborg.

„Þetta er auðvitað það sem er leiðinlegt í fótboltanum í dag, bæði fyrir leikmenn og áhorfendur. Strákarnir vilja auðvitað upplifa þessa stemningu sem myndast víða erlendis. Við höfðum auðvitað áður spilað við Celtic á útivelli og stemningin þá var geggjuð. Án áhorfenda er leikir dálítið eins og æfingaleikur í Egilshöll, nema að vísu á alvörugrasi.“

Ekkert hefur verið hægt að spila á Íslandi undanfarið vegna hertra aðgerða yfirvalda til að sporna við veirunni. Knattspyrnusamband Íslands hefur til að mynda frestað öllum leikjum til og með 13. ágúst. Nú þegar er búið að fresta fjórum leikjum hjá KR og ljóst að álagið skánar ekki þegar leikur í Meistaradeildinni bætist við.

„Þetta verður jafn erfitt fyrir nánast öll lið. Auðvitað væri gott að geta dreift leikjunum betur, það var nógu erfitt að spila í Evrópukeppni áður. Nú er strax búið að fresta fjórum leikjum hjá okkur og flestum liðum í úrvalsdeild.“ Rúnar vill þó ólmur klára Íslandsmótið, enda mikið í húfi.

„Það er erfitt að koma mótinu fyrir en ég hugsa að þetta komi nokkuð jafnt niður á öllum félögum. Það er hagur allra að klára mótið, það er mikið undir, bæði fjárhagslega fyrir félögin og íslenska knattspyrnu að við séum með lið í Evrópukeppnum. Peningarnir koma þannig inn í landið og flæða svo á milli félaga. Við þurfum að fá það á hreint hvaða félög keppa í þessum mótum á næsta ári.“

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert