Óheimilt að fagna mörkum með snertingu

Frá leik KR og Fjölnis í Mjólkurbikarnum.
Frá leik KR og Fjölnis í Mjólkurbikarnum. mbl.is/Árni Sæberg

KSí birti í dag drög að ítarlegum reglum um framkvæmd knattspyrnuleikja ef hægt verður að hefja keppni á nýjan leik næstkomandi föstudag. Á heimasíðu KSÍ segir að núverandi takmarkanir gilda til og með 13. ágúst, en vonast til er til að hægt verði að leika keppnisknattspyrnu hér á landi frá og með föstudeginum 14. ágúst. 

Reglurnar eru byggðar á almennum sóttvarnarkröfum heilbrigðisyfirvalda á Íslandi en styðjast við sambærileg gögn m.a. frá Þýskalandi, Danmörku og Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA.

Samkvæmt nýju reglunum þarf að skipta knattspyrnumannvirkjum í svæði, tæknisvæði, áhorfendasvæði og ytra svæði. Tryggja þarf að leiðir liða skarist ekki við komu á leikstað og helst eiga lið að nota sitthvorn innganginn í mannvirki. Þá þarf að halda tveimur metrum milli leikmanna í búningsklefum og leikmenn ættu ekki að dvelja þar lengur en 30-40 mínútur fyrir og eftir leiki.

Þá er öllum skylt að nota andlitsgrímur í búningsklefum. Þá skal alltaf halda tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga við komu á völlinn, fyrir og í upphitun, þegar gengið er til leiks, í hálfleik og eftir leik.

Þá þurfa liðin til að mynda ganga út á völlinn í sitthvoru lagi, halda skal tveggja metra regluna á varamannabekk og annarsstaðar. Þá er óheimilt að fagna mörkum með snertingu. Bannað er að hrækja á völlinn og markmönnum bannað að hrækja í markmannshanskana. Þá ber öllum nema leikmönnum, þjálfurum og dómurum skylda til að vera með andlitsgrímur í hálfleik. Boltar skulu sótthreinsaðir í hvert skipti sem þeir fara úr leik.

Drög að reglunum má sjá í heild sinni á heimasíðu KSÍ

mbl.is