Ég var bara rekinn

Óla Stefáni Flóventssyni var vikið frá störfum hjá KA.
Óla Stefáni Flóventssyni var vikið frá störfum hjá KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég var bara rekinn,“ sagði hreinskilinn Óli Stefán Flóventsson, fyrrverandi þjálfari karlaliðs KA í fótbolta, um endalok sín hjá félaginu í síðasta mánuði. Var honum var vikið frá störfum sem þjálfari liðsins. Óli Stefán ræddi við Valtý Björn Valtýsson í Mín skoðun á Sport FM í dag

Hann segir að það hafi komið sér á óvart að einhverju leyti að missa vinnuna á þessum tímapunkti, KA gaf það út að um sameiginlega ákvörðun hafi verið að ræða. „Ég veit þetta er úrslitasinnað starf og maður þarf að ná í úrslit og þau voru ekki að detta með mér. Þetta kom mér smá á óvart ef ég lít á stefnumótunina og stefnu okkar hjá félaginu. Í fyrra gekk það upp og við vorum á topp 6 á Íslandi.“

KA var í fallbaráttu framan af síðasta sumri, en endaði síðan í fimmta sæti. Óli Stefán er ekki ánægður með þá umræðu að lokastaðan gaf ekki rétta mynd af tímabili KA-manna. 

„Umræðan um það var svo skrítin, það er skrítið að það sé hægt að gera lítið úr lokastöðunni á Íslandsmóti. Eini staðurinn sem liðið á skilið að vera er eftir síðustu umferðina, allt hitt er eltingaleikur. Eina niðurstaðan sem er sanngjörn er lokaniðurstaðan, en eina umræðan var sú að þetta gæfi ekki rétta mynd af tímabilinu okkar í fyrra og mér finnst það fáránleg umræða.“

Hann bendir á að KA hefði getað náð í enn fleiri stig, enda í fínni stöðu í nokkrum leikjum þegar skammt var eftir. 

„Leikurinn við Víking var furðulegur því þeir voru góðir í þeim leik, en þegar uppi er staðið voru fleiri leikir sem við klúðruðum en unnum ósanngjarnt. Við vorum að fá á okkur víti á 95. mínútu og sigurmark á 97. mínútu manni fleiri. Við töpuðum á móti KR í leik sem mér fannst við miklu betur í. Það voru fullt af stigum sem hefði getað orðið okkar í hag. Taflan lýgur ekki og hún segir að við enduðum í fimmta sæti sem er besti árangur KA í langan tíma,“ sagði Óli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert