Landsliðið er númer eitt, tvö og þrjú

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsliðskonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir mun taka þátt á Íslandsmótinu í knattspyrnu næstu mánuði en hún er gengin í raðir Vals að láni frá Utah Royals í Bandaríkjunum. Þetta verður í fyrsta sinn í átta ár sem miðjumaðurinn spilar hérlendis en hún lék alls 142 leiki og skoraði 38 mörk fyrir uppeldisfélagið sitt Stjörnuna árin 2003 til 2012 áður en hún hélt út í atvinnumennsku.

Gunnhildur var fyrstu árin í Noregi en flutti til Bandaríkjanna fyrir tveimur árum og gekk til liðs við Utah sem leikur í atvinnumannadeildinni. Hún spilaði eitt tímabil að láni með Adelaide United í Ástralíu og var þar með landsliðssamherja sínum, Fanndísi Friðriksdóttur, sem er á mála hjá Val í dag en spilar þó ekkert næstu mánuði enda barnshafandi.

Gunnhildur er 31 árs og hefur getið sér gott orðspor í Utah jafnframt því að vera lykilmaður í íslenska landsliðinu þar sem hún hefur spilað 71 A-landsleik og skorað tíu mörk. Þó hún hafi ekki ætlað sér annað en að vera um kyrrt í Ameríku breyttust áformin í kjölfar kórónuveirufaraldursins sem nú herjar á heimsbyggðina. Meðal annars var deildarkeppninni þar frestað.

Verður að vera klár í landsleikina

„Það er ekki auðvelt að vera í Bandaríkjunum núna og hugsanlega verður ekkert spilað á næstu mánuðum,“ sagði Gunnhildur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn. Ísland mun að öllu óbreyttu spila mikilvæga leiki í undankeppni Evrópumeistaramótsins í haust og það skiptir hana miklu máli að vera í standi fyrir þau verkefni. „Ég verð að undirbúa mig undir landsleikina, í mínum huga verða þeir auðvitað spilaðir.“

Viðtalið við Gunnhildi Yrsu má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert