Leikið fyrir luktum dyrum á Íslandsmótinu

KR-ingar taka á móti FH fyrir luktum dyrum í stórleik …
KR-ingar taka á móti FH fyrir luktum dyrum í stórleik umferðarinnar á morgun. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Engir áhorfendur verða leyfðir á knattspyrnuleikjum á Íslandi á næstunni en þetta var staðfest af Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni á daglegum upplýsingafundi almannavarna rétt í þessu.

„Það hafa verið misvísandi skilaboð frá okkur varðandi áhorfendur en þeir verða ekki heimilaðir,“ sagði Víðir á fundinum en Knattspyrnusamband Íslands staðfesti í gær að mótið myndi hefjast aftur á morgun, föstudag, en óvíst væri hvort áhorfendur mættu vera á leikjum.

„Það kemur skýrt fram í minnisblaði sóttvarnalæknis... Það er skýr vilji hans að hafa ekki áhorfendur á íþróttaleikjum til að byrja með,“ bætti Víðir við.

Mótið hefst á morgun með leikjum í tveimur efstu deildum karla og verður meðal annars stórleikur Íslandsmeistara KR og FH á dagskrá í Vesturbænum.

mbl.is