„Alger óþarfi að tapa þessum leik“

Óskar Örn í leiknum í kvöld. Pétur Viðarsson í baksýn.
Óskar Örn í leiknum í kvöld. Pétur Viðarsson í baksýn. mbl.is/Arnþór

Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, sagði KR-inga ekki hafa nýtt marktækifærin nægilega vel í kvöld þegar liðið tók á móti FH í Pepsí Max deildinni og tapaði 1:2. 

„Við nýttum ekki færin. Mér fannst alger óþarfi að tapa þessum leik. Það var munurinn að þeir nýttu færin. Ég man ekki sérstaklega eftir öðrum marktækifærum hjá þeim en þú átt ekki skilið að vinna ef þú nýtir ekki færin,“ sagði Óskar Örn þegar mbl.is spjallaði við hann. 

Óskar Örn segir það hlé sem gert var á deildinni ekki hafa verið það langt að það skipti öllu máli varðandi frammistöðu.

„Það er ekki það langt síðan við spiluðum leik. Á einhverjum tímapunkti leit út fyrir að mótinu yrði aflýst og kannski hefur óvissan í kringum þetta meiri áhrif á menn. Við höfum æft allan tímann og ég tel því ekki að ryði sé um að kenna.“

KR og FH eru nú með jafn mörg stig í deildinni og toppbaráttan virðist galopin. „Já algerlega. Það fer ekkert lið taplaust í gegnum þessa deild og við vorum svo sem ekki að tapa fyrir neinu aulaliði í kvöld. Þú getur ekki bókað neitt fyrirfram og þarft að vera klár í alla leiki eins og hefur sýnt sig hjá okkur,“ sagði Óskar ennfremur í samtali við mbl.is. 

mbl.is