„Ég veit að við getum verið í toppbaráttunni“

Eggert Gunnþór Jónsson og Kristinn Jónsson í leiknum í kvöld.
Eggert Gunnþór Jónsson og Kristinn Jónsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði FH, segist viss um að FH geti barist um Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu í ár. Hann bendir hins vegar á að sigurinn gegn KR í kvöld haif verið afar mikilvægur því annars hefði FH dregist aðeins aftur úr. 

„Þetta var virkilega góð liðsframmistaða. Við vorum ein heild í dag og vörðumst virkilega vel. Við nýttum færin betur en við höfum gert í sumar. Við fengum ekki endalaust af færum en skoruðum tvö mörk. Ég er virkilega ánægður enda mjög mikilvæg þrjú stig,“ sagði Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði FH, á KR-vellinum í kvöld. 

Sigur gegn meisturunum á útivelli eru viss skilaboð um að FH-liðið geti verið í bullandi toppbaráttu þegar líður á tímabilið. 

„Já já. Þetta voru mikilvæg stig því við hefðum getað misst KR og jafnvel önnur lið töluvert fram úr okkur ef við hefðum ekki unnið í dag. Ég veit að við getum verið í toppbaráttunni þótt við höfum átt leiki sem hafa ekki verið neitt sérstakir. En við höfum unnið þá. Við þurfum að læra að tengja betur saman góða leiki og við eigum mjög erfiðan leik næsta mánudag [gegn Stjörnunni]. Við þurfum að hvíla okkur ef við ætlum að ná inn svipaðri frammistöðu og vinna þann leik.“

Björn Daníel Sverrisson
Björn Daníel Sverrisson mbl.is/Kristinn Magnússon

Eggert Gunnþór Jónsson og Ólafur Karl Finsen komu báðir við sögu í kvöld og léku sinn fyrsta leik fyrir FH. „Ég held að allir sem fylgjast með íslenskum fótboltamönnum, og fylgdust með uppgangi 21árs landsliðsins á sínum, viti hvað Eggert getur í fótbolta. Hann hefur átt frábæran feril og ég er virkilega ánægur að fá hann. Hann gæti gefið mér meira frelsi til að fara fram og inn í teiginn. Hann er frábær náungi og ég tengi vel við hann. Eggert er fastur fyrir og við þurftum svolítið á því að halda.“

Leikið var fyrir luktum dyrum eins og það er gjarnan kallað vegna sóttvarnaaðgera. „Við spiluðum einn svona leik í bikarnum um daginn þar sem ekki voru áhorfendur [gegn Þór 30. júlí]. Það var svipuð upplifun en þegar við spilum á móti KR þá eru yfirleitt 2-3 þúsund á vellinum. Þetta var skrítið fyrstu tíu mínúturnar en maður þurfti að átta sig á því fyrir leik að þetta væri deildarleikur. Mér fannst við gera það en maður þarf að venjast þessu í einhvern tíma alla vega. Hafi þetta hjálpað okkur í dag þá er það bara fínt en það verður gaman þegar áhorfendur fá að mæta aftur,“ sagði Björn Daníel í samtali við mbl.is í kvöld. 

mbl.is