Mikilvægur sigur FH gegn KR

Pétur Viðarsson úr FH og KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson eigast …
Pétur Viðarsson úr FH og KR-ingurinn Óskar Örn Hauksson eigast við í kvöld. mbl.is/Arnþór

FH fór upp að hlið KR í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu með 2:1 sigri í leik liðanna á Meistaravöllum í kvöld.

Eru liðin nú bæði með  17 stig, tveimur stigum á eftir Val sem er á toppnum og á leik til góða. 

Er þetta aðeins annað tap KR i deildinni í sumar en báðum leikjunum hefur liðið tapað í vesturbænum. Í fyrra skiptið gegn HK. 

Daníel Hafsteinsson, miðtengiliður FH, réði úrslitum í kvöld en hann skoraði bæði mörk FH. Kom hann FH tvívegis yfir. Fyrsta á 15. mínútu og aftur á 75. mínútu. Í millitíðinni eða á 41. mínútu jafnaði Kristján Flóki Finnbogason fyrir KR. 

Þórir Jóhann Helgason fékk boltann vinstra meginn við teiginn eftir langa sendingu frá Eggerti Gunnþóri Jónssyni á 15. mínútu. Renndi boltanum fyrir á Daníel sem kom á ferðinni og fékk boltann rétt innan teigs. Daníel stýrði boltanum neðst í hægra hornið með innanfótarskoti. Snyrtilega gert og virkaði einfalt en sending Eggerts opnaði vörnina hjá KR. 

Á 41. mínútu fékk KR sókn sem virtist vera að renna út í sandinn eftir að Finnur Orri Margeirsson og Kennie Chopart náðu ekki að koma skoti á markið hægra megin í teignum. Arnþór Ingi Kristinsson fékk boltann fyrir utan teig og kom honum inn á teiginn. Boltinn gæti hafa haft viðkomu í FH-ingi en Kristján Flóki Finnbogason var aleinn og kom boltanum í vinstra hornið af stuttu færi. Kristján Flóki skoraði því gegn uppeldisfélaginu. 

Sigurmarkið kom á 75. mínútu og aftur var það Daníel sem skoraði eftir vel tímasett hlaup inn í teiginn. Þórir Jóhann Helgason gaf mjög hættulega fyrirgjöf inn á teiginn frá hægri. Þar kom Daníel á ferðinni á milli varnarmanna og tókst að senda boltann í vinstra hornið. 

KR-ingar með boltann en gætu verið beittari

Fyrirfram vissi maður kannski ekki alveg við hverju mátti búast. Áhorfendum meinaður aðgangur að leikjum og liðin höfðu ekki spilað í rúmar tvær vikur. Hversu einbeittir voru leikmenn á því tímabili þegar þeir biðu eftir því hvort flauta ætti Íslandsmótið af eða ekki? Þessi lið voru auk þess í daufari kantinum í síðustu leikjunum áður en gert var hlé. Gerðu þau bæði markalaus jafntefli við KA skömmu fyrir hlé. 

Leikurinn var ágætur þótt liðin eigi eftir að slípast aðeins betur til á nýjan leik. Bæði lið voru fremur varkár en KR var töluvert meira með boltann. Liðið skapaði sér fleiri færi en FH-ingum virtist hins vegar ekki líða illa þótt KR-ingar væru með boltann. Þótt KR hefði getað skorað fleiri mörk þá gekk FH-ingum ekki illa að verjast þeim. 

Þegar uppi var staðið átti KR 15 skottilraunir en FH fjórar sem gefur einhverja mynd af leiknum. Vel var hins vegar staðið að báðum mörkum FH og Daníel sýndi að hann er hættulegri í sókninni en margan grunar. Hefur maður frekar litið á hann sem varnarsinnaðan miðjumann en hann tímasetti hlaupin inn í teiginn afar vel og skoraði bæði mörkin. Eggert Gunnþór kemur með líkamlegan styrk og reynslu inn á miðjuna. Hann skilaði boltanum ekki alltaf vel frá sér en allir vita að hann er mjög sterkur í návígum og getur tengt saman vörn og miðju. Tilkoma hans gæti gefið Birni Daníel Sverrissyni meira pláss til að ógna þegar fram líða stundir.

Eggert lék ekki bara sinn fyrsta leik fyrir FH heldur einnig sinn fyrsta leik í efstu deild á Íslandi. 

KR gerði jafntefli gegn Fjölni og KA í síðustu leikjunum fyrir hlé og tapaði nú á heimavelli. Mörg stig hafa því farið í súginn hjá meisturunum í síðustu umferðum. Ljóst er að liðið er ekki eins stöðugt og í fyrra en vert er að geta þess að margt hefur gengið á í leikmannahópnum hvað varðar meiðsli. Í dag fór Kristinn Jónsson meiddur út af og gæti því misst aftur úr leiki. Ekki er það gott fyrir sóknarleik liðsins sem gæti verið beittari. 

KR 1:2 FH opna loka
90. mín. Ægir Jarl Jónasson (KR) á skot sem er varið FH bjargar á marklínu. Boltinn féll fyrir Ægi í teignum eftir hornið. Hann snéri baki í markið og skaut aftur fyrir sig en Guðmundur Kristjánsson bjargaði á línu. Skallaði frá.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert