Ótrúlegt átta marka jafntefli í Safamýri

Framarar björguðu jafntefli eftir mikla dramatík.
Framarar björguðu jafntefli eftir mikla dramatík. mbl.is/Íris

Fram og ÍBV gerðu ótrúlegt 4:4-jafntefli í Lengjudeild karla í fótbolta á Framvellinum í Safamýri í kvöld. ÍBV komst í 4:2, en Framarar neituðu að gefast upp. 

Bjarni Ólafur Eiríksson kom ÍBV yfir á elleftu mínútu en tíu mínútum síðar jafnaði Brasilíumaðurinn Fred með glæsilegu marki. Er Fred markahæsti leikmaður Fram í sumar með sex mörk í deildinni. 

ÍBV komst aftur yfir á 36. mínútu með marki Tómasar Bent Magnússonar, en Þórir Guðjónsson jafnaði fyrir Fram í blálok fyrri hálfleiks og var staðan í hálfleik 2:2. 

Felix Örn Friðriksson og Gary Martin skoruðu báðir snemma í seinni hálfleik og komu ÍBV í 4:2. Martin er markahæstur í deildinni með níu mörk.

Heimamenn lögðu ekki árar í bát. Varamaðurinn Tryggvi Snær Geirsson minnkaði muninn í 4:3 á 70. mínútu og annar varamaður, Aron Snær Ingason, jafnaði fyrir Fram í uppbótartíma og þar við sat. 

ÍBV er í öðru sæti með 19 stig, eins og Leiknir en Breiðholtsliðið er með betri markatölu og leik til góða. Fram er í þriðja sæti með 18 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert