Værukærum Stjörnumönnum refsað

Þorsteinn Már Ragnarsson, Stjörnunni, og Kristófer Melsted, Gróttu, eigast við …
Þorsteinn Már Ragnarsson, Stjörnunni, og Kristófer Melsted, Gróttu, eigast við í kvöld. mbl.is/Arnþór

Stjarnan og Grótta skildu jöfn, 1:1, í Pepsi Max-deild karla í fótbolta á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. Eru nýliðar Gróttu væntanlega töluvert sáttari við úrslitin. 

Stjarnan komst yfir á 26. mínútu er Guðjón Pétur Lýðsson skoraði með skemmtilegu skoti innan teigs eftir fyrirgjöf frá Heiðari Ægissyni og var staðan í hálfleik 1:0. 

Gróttumenn mættu grimmir til leiks í seinni hálfleik og var það algjörlega verðskuldað þegar Karl Friðleifur Gunnarsson jafnaði á 75. mínútu. 

Stjarnan sótti grimmt eftir jöfnunarmarkið en illa gekk að skapa sér mjög gott færi og nýliðarnir gátu fagnað stigi. 

Stjarnan er í fjórða sæti með 15 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Vals og með tvo leiki til góða. Grótta er í ellefta sæti með sex stig, nú tveimur stigum á eftir HK. 

Stjörnumenn að hiksta 

Eftir afar góða byrjun á mótinu hafa Stjörnumenn aðeins verið að hiksta í síðustu leikjum og hefur liðið leikið tvo leiki í röð án sigurs og þrjá af síðustu fimm. Stjörnumenn hafa hinsvegar ekki tapað leik og hefur liðið aðeins fengið á sig sex mörk, minnst allra. 

Það var hins vegar ákveðin værukærð sem greip um sig hjá Stjörnumönnum í stöðunni 1:0. Þeir voru yfir móti nýliðunum á heimavelli á fallegu föstudagskvöldi og héldu eflaust einhverjir Stjörnumenn að um auðvelt kvöld yrði að ræða. Sú var heldur betur ekki raunin. 

Grótta bítur frá sér 

Grótta hefur sýnt á köflum í sumar að liðið getur bitið frá sér. Á milli þess sem nýliðunum er skellt, sýna þeir betri hliðar og það eru sterkir leikmenn inn á milli í leikmannahópi Gróttu og geta þeir refsað. 

Það hefur reynst þeim afar vel að fá Karl Friðleif Gunnarsson frá Breiðabliki og þá virðist Kristófer Orri Pétursson alltaf geta skapað færi, en hann lagði upp jöfnunarmarkið. Gróttumenn léku sér að því að pirra Stjörnumenn, sem féllu í gildu nýliðanna. Stigið er gott fyrir Gróttumenn, en þeir verða að fara að ná í sigra. 

Staða Stjörnunnar er enn góð og vinni Garðbæingar þá leiki sem þeir eiga inni fara þeir í toppsætið. Með spilamennsku eins og í kvöld verður það hins vegar erfitt verk. 

Stjarnan 1:1 Grótta opna loka
90. mín. Alex Þór Hauksson (Stjarnan) fer af velli
mbl.is